6. desember 2016

Eiðurinn fyrir unglinga.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Baltasar Kormákur, kvikmyndaleikstjóri, undirrituðu föstudaginn 28. október styrktarsamning sem ætlað er að mæta kostnaði við sýningar og kynningu á tilurð kvikmyndarinnar Eiðurinn fyrir nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla um land allt.

Kvikmyndin Eiðurinn segir af reykvískum lækni sem tekur afdrífaríkar ákvarðanir þegar hann áttar sig á því að dóttir hans er komin í neyslu hættulegra vímuefna og í samband með hættulegum dópsala.  Myndin var frumsýnd 9. september síðastliðinn og hefur vakið mikla athygli. Baltasar Kormákur leikstýrði myndinni og skrifaði handritið ásamt Ólafi Egilssyni.

Með samningnum verður grunnskólum um land allt gefinn kostur á að sækja sýningu á myndinni og umræðum um efni hennar í forvarnarskyni gegn vímuefnaneyslu ungs fólks. Aðstandendur kvikmyndarinnar koma til með að bjóða fram krafta sína til kynningar á baksviði hennar og heimsækja grunnskóla um land allt, samkvæmt samkomulagi við skóla.

https://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/forsidugreinar/kvikmyndin-eidurinn-synd-i-efri-bekkjum-grunnskola