15. september 2017

Vel heppnað Menningarland á Dalvík

List fyrir alla tók þátt í Menningarlandinu 2017 sem haldið var á Dalvík 13. – 14. september 2017. Þátttakendur voru fulltrúar menningarstofnanna og áhugasamir aðilar um barnamenningu.

Gefum Vigdísi Jakobsdóttur listrænum stjórnanda Listahátíðar Reykjavíkur orðið.

Byrinn í seglin sækir maður til kollega og vina sem brenna fyrir sömu hluti og maður sjálfur. Menningarlandið 2017 varpaði kastljósinu á barnamenningu og ó hvað það var gott að tala saman. Það er ekkert minna en stórkostlegt að sjá og finna fyrir eldmóðinum sem virðist einkenna nánast alla sem að barnamenningu koma hérlendis. Tvo dýrðardaga á Dalvík heyrðum við sögur af kraftmiklu starfi erlendis, sterkum nýlegum íslenskum verkefnum eins og List fyrir alla og KrakkaRÚV og á markaðstorgi hugmynda skapaðist tækifæri til að kynnast ótal spennandi verkefnum alls staðar að af landinu. Við klöppuðum í takt, fleygðum skóm í hvert annað og nutum þess að styrkja tengslin og skapa ný. Takk fyrir mig.