Barnakvikmyndahátíðin UngRIFF Kvikmyndir

Barnakvikmyndahátíðin UngRIFF

UngRIFF er hátíð unnin í samstarfi við börn og unglinga á aldrinum 4-16 ára og er ætlað að kynna fyrir þeim töfraheim kvikmyndanna og auka kvikmyndalæsi. Við teljum að kvikmyndir eigi að vera mikilvægur hluti af lífi barna og ungmenna á leik- og grunnskólaaldri og trúum því staðfastlega að sérhvert barn eigi að fá tækifæri til að kanna og taka þátt í kvikmyndaheiminum, án nokkurar mismununar eða fordóma. UngRIFF miðar að því að skapa öruggt og eflandi umhverfi þar sem börn geta tjáð sig, deilt sjónarmiðum sínum og tengst öðrum sem kunna að koma úr ólíkum stéttum. UngRIFF er nú haldin í fyrsta sinn og fer fram í Reykjavík og víða á landsbyggðinni á meðan á RIFF stendur.

Fjölbreytt úrval kvikmynda

UngRIFF er með gott úrval kvikmynda og stuttmynda sem að henta fyrir alla aldurshópa. Þar má nefna Norðurlanda frumsýningu á Áströlsku teiknimyndinni Hættuspil (e. Scarygirl) en hún er einmitt opnunarmynd UngRIFF í ár. Yfir 1000 börn munu mæta á sérstakar skólasýningar í Smárabíó, Herðubíó á Patreksfirði og Skjaldborg á Seyðisfirði.

Á RIFF aðalhátíðinni má einig finna nokkrar myndir sem henta börnum, þar á meðal stuttmyndir frá lettneska kvikmyndaverinu Animācijas Brigāde og eftir lettneska leikstjórann Vladimir Leschiov.

Þar að auki eru 9 Norðurlanda frumsýningar á stuttmyndum sem sýndar eru á fjölbreyttri stuttmynda dagskrá okkar sem verður til sýningar í Norræna húsinu, á bókasöfnum höfuðborgarsvæðisins og á landsbyggðinni. 

Kennslu og stuðningsefni

UngRIFF bíður upp á sérstakt stuðningsefni sem skólar og kennarar geta nýtt sér að kostnaðarlausu. Kennsluefnið er í formi stuttmynda með stuðningsefni sem að hægt er að nýta í kennslu. Stuðningsefnið var síðast sent út til skóla árið 2021 og vakti mikla lukku bæði nemenda og kennara.

Stuttmyndasmiðja á Ísafirði.

Haldin var stuttmyndasmiðja undir handleiðslu leikstjórans Erlings Óttars Thoroddsen. Smiðjan fór fram dagana 19. til 21. september og var öllum nemendum 9. bekkjar Grunnskóla Ísafjarðar boðið. Námskeiðið var hluti af Púkanum, Barnamenningarhátíð Vestfjarða og vakti mikla lukku nemenda sem og kennara.

Madden í Borgarnesi

Leikstjórinn Malin Ingrid Johansson verður á landinu þegar hátíðin á sér stað en mynd hennar Madden er hluti af stuttmyndadagskrá UngRIFF. Sérstök sýning af Madden verður haldin í Félagsmiðstöðinni Óðali í Borgarnesi þar sem ungmennum mun gefast kostur á að taka þátt í vinnusmiðju að sýningu lokinni. Malin Ingrid mun safna saman viðbrögðum og hugmyndum ungmennanna og nota sem innblástur þegar hún gerir Madden í fullri lengd.

Einnar mínútu smiðja / One Minute Workshop

UngRIFF stendur fyrir einnar mínútu kvikmyndasmiðju undir handleiðslu Brúsa Ólasonar dagana 2. og 3. október í Norræna húsinu fyrir ungmenni á aldrinum 13-16 ára.

Einnar mínútu smiðjan eflir ungmenni í að umbreyta hugmyndum sínum í raunverulega afurð. Þátttakendur fá leiðsögn í honum ýmsu þáttum kvikmyndagerðar, þar á meðal handritsgerð, myndatöku, leikstjórn og klippingu. Þátttakendur munu læra hvernig á að nota myndmál til að koma hugmyndum sínum á framfæri á áhrifaríkan hátt innan marka einnar mínútu kvikmyndar.

Einnar mínútu myndir eru frábær grunnur fyrir börn og ungmenni til að skilja listina að skapa hnitmiðaða frásögn, sem hægt er að nota frekar á vettvangi eins og TikTok.

Krakkar kenna spuna

Spunanámskeið á vegum Leiklistarskóla Borgarleikhússins. 60 mínútna leiklistarnámskeið þar sem farið verður í spuna- og leiklistarleiki. Leiðbeinendur á námskeiðinu eru nemendur á lokaári Leiklistarskóla Borgarleikhússins. Námskeiðið er ætlað börnum frá 10 til 13 ára.

Ungmennaráð UngRIFF / YoungRIFF’s Youth Council

Ungmennaráð UngRIFF samanstendur af ungmennum með brennandi áhuga á öllu því sem við kemur kvikmyndum. Ráðið kemur að skipulagningu hátíðarinnar og því geta börn og ungmenni svo sannarlega kallað UngRIFF sína eigin hátíð!

Í Ungmennaráði sitja:

Sigurrós Soffía Daðadóttir
Ísadóra Ísfeld Finnsdóttir
Katla Líf Drífu-Louisdóttir Kotze

Umsjón með UngRIFF:

Óli Valur Pétursson

Upplýsingar
Hvað

Barnakvikmyndahátíðin UngRIFF

Hvenær

Október 2023

Hvar

Landið allt

Hverjir

Riff

Aldurshópur

Allur aldur

Aðstaða og tækni