Dýratónar Listir

Dýratónar

UM DÝRATÓNA

Dýratónar er viðburður fyrir börn þar sem tónlist og líffræði takast í hendur. Það eru tónlistarkonan Sóley Stefánsdóttir og líffræðingurinn Edda Elísabet Magnúsdóttir sem taka höndum saman og leiða börn eftir tónstigum og taktsviðum dýraríkisins.

Við hefjum leika í háloftunum þar sem við opnum tóneyrun fyrir þeim fjölbreyttu laglínum sem raddbönd fugla geta framkallað. Næst færum við okkur niður á jörðina og leggjum eyrun upp að púlsandi takti skordýra. Loks dýfum við okkur ofan í hafdjúpin og látum okkur fljóta um fjölbreytt tíðnisvið í hvalasöngvum hnúfubaksins – og komumst að því hvað var vinsælasta hvalalagið við Íslandsstrendur árið 2011!

Frumsamin tónlist Sóleyjar rammar viðburðinn inn og fléttar röddum og rythmum barnanna í salnum saman við tónvef sinn. Eitthver gæti sagt að viðburðurinn væri mitt á milli þess að vera tónleikar, þátttökuverk og TED talk fyrirlestur – það væri bara nokkuð nærri lagi!

UM FLYTJENDUR

Sóley Stefánsdóttir er tónlistarkona úr Hafnarfirði. Eftir að Sóley útskrifaðist úr LHÍ sem tónskáld hefur hún gefið út 4 breiðskífur og margar minni plötur og verk. Árið 2021 kom út fjórða breiðskífa hennar Mother Melancholia sem hefur hlotið gífurlega góða dóma og var valin plata ársins í opnum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum 2022 ásamt því að hljóta þrjár aðrar tilnefniningar. Einnig var hún valin plata ársins hjá tónlistargagnrýnanda Morgunblaðsins og hjá Reykjavík Grapevine music awards. Sóley er tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs í ár.

Sóley hefur unnið að tónlist og hljóðmynd fyrir leikhús, nú síðast fyrir teiknimynda-leiksýninguna Tréð (2020) sem hlaut afar góða dóma og tilnefningu til Grímunnar sem barnasýning ársins og einnig kvikmyndir, útvarpsþætti, dansverk og stuttmyndir.

Sóley hefur áður hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem bjartasta vonin, lagahöfundur ársins og plötu ársins fyrir plötu sína We Sink. Einnig hefur hún verið tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna og hlaut Kraumsverðlaunin 2012. Hún fékk Grímu tilnefningu fyrir tónlist sína í brúðuleikhúsinu Nýjustu Fréttir og hlotnaðist nýverið sá heiður að fá hvatningarverðlaun úr minningarsjóði Kristjáns Eldjárns.

Edda Elísabet Magnúsdóttir starfar sem lektor í líffræði við Deild faggreinakennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Í doktorsnámi sínu rannsakaði hún hljóðsamskipti hnúfubaka með áherslu á greiningu á sönghegðun þeirra og sönggerð, þá sérstaklega hvernig þeir deila söngvum milli hafsvæða og hvernig þeir þróa söngva sína frá ári til árs þannig að á hverju ári sameinast þeir í sama söngnum.

Slíkt atferli í dýraríkinu gefur mikinn innblástur til vísindamiðlunar enda einstakt tækifæri sem gefst til að fræða almenning, þá sérstaklega börn og ungmenni, um undraheim dýranna, líkindi þeirra við okkar eigið atferli og þannig að tengja þau við náttúruna sem svo oft er fjarlæg ungmennum í dag.

Edda hefur tekið virkan þátt í vísindamiðlun í gegnum fjölda viðburða, svo sem Vísindavöku Rannís, Háskóla Unga Fólksins, í gegnum fréttamiðla, fræðsluþætti og fleiri viðburði fyrir almenning.

ÞYKJÓ

ÞYKJÓ er þverfaglegt hönnunarverkefni fyrir börn á sviði upplifunar-, textíl- og leikfangahönnunar.

ÞYKJÓ stendur einnig fyrir fjölbreyttum listsmiðjum, innsetningum og viðburðum fyrir börn í samstarfi við söfn og menningarstofnanir.
ÞYKJÓ er hópur hönnuða með fjölbreyttan bakgrunn sem samnýta ólíka sérþekkingu í teymisvinnu sinni. Hópinn skipa Sigríður Sunna Reynisdóttir listrænn stjórnandi, Erla Ólafsdóttir arkitekt, Sigurbjörg Stefánsdóttir fatahönnuður og Ninna Þórarinsdóttir barnamenningarhönnuður.
Hópurinn var tilnefndur til Hönnunarverðlauna Íslands 2021 og var valinn staðarlistamenn Menningarhúsa Kópavogs sama ár. Nýjasta verkefnið Þykjó er Hljóðhimnar, upplifunarrými fyrir börn í Hörpu.

 

 

 

 

Upplýsingar
Hvað

Þykjó í samstarfi við Sóleyju Stefánsdóttur og Eddu Elísabetu Magnúsdóttir

Hvenær

7,. - 11. nóvember 2022

Hvar

Vestfirðir

Hverjir

Sóley Stefánsdóttir
Edda Elílsabet Magnúsdóttir

Aldurshópur

1. - 6. bekkur

Aðstaða og tækni

Hljóðkerfi, Skjávörpun, Nettenging, Hljóðfæri (píanó/flygill/annað)