Ein stór fjölskylda, Gunni og Felix heimsækja skólann þinn Listir

Ein stór fjölskylda, Gunni og Felix heimsækja skólann þinn

Gunni og Felix – Ein stór fjölskylda

Félagarnir Gunnar Helgason og Felix Bergson mæta í skóla með 90 mínútna langa dagskrá sem sniðin er að 1.-10. bekk en með möguleika á að taka inn eldri bekki í smærri skólum.

Gunnar verður með fyrirlestur um hvernig á að skrifa geggjaðar sögur og inn í þann fyrirlestur blandar Felix pælingum um fjölskyldur og mismunandi fjölskylduform. Þeir svara svo spurningum og pælingum krakkanna. Að fyrirlestrum loknum munu þeir skemmta krökkunum og öðrum gestum með söng og glensi.

Gunnar fer í sínum fyrirlestri ofan í það hvað þarf til að gera góða sögu enn betri. Hann notast við Aristóteles, Andersen, Dickens og Disney, tekur dæmi og dýpkar skilning barnanna á söguuppbyggingu sem þau geta strax nýtt sér við sína sögusmíð.

Felix fer ofan í saumana á hinum ýmsu fjölskylduformum sem hafa alltaf verið til í samfélaginu þó sum hafi verið „samþykktari“ en önnur. Hann mun opna augu og hjörtu áhorfandans og stuðla þar með að opnara og fordómalausara samfélagi. Hvað er „venjuleg“ fjölskylda? Hvað er það að vera fjölskylda?

Í kjölfarið tekur við söngskemmtunin Ein stór fjölskylda, þar sem Gunni og Felix syngja lögin sín frá rúmlega 25 ára ferli en Gunni og Felix urðu til þegar þeir tóku við Stundinni okkar árið 1994. Þeir fá börnin til að syngja með, dansa og taka þátt og auðvitað að hlæja því þar sannast hið forkveðna: þegar barnið hlær verður heimurinn betri.

 

Upplýsingar
Hvað

Ein stór fjölskylda með Gunni og Felix

Hvenær

10. - 14. október 2022

Hvar

Austurland

Hverjir

Gunnar Helgason
Felix Bergsson

Aldurshópur

1. - 10. bekkur

Aðstaða og tækni

Skjávarpi