29. maí 2024

Úthlutun úr Barnamenningarsjóði 2024

Tilkynnt hefur verið um úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2024.
Sjóðurinn styrkir 41 metnaðarfullt verkefni og er heildarupphæð úthlutunarinnar 102,4 milljónir króna. Alls bárust 117 umsóknir og var sótt um 383 milljónir króna. Úthlutun var tilkynnt við athöfn í Safnahúsinu á degi barnsins, sunnudaginn 26. maí 2024. Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra og Guðný Hilmarsdóttir formaður stjórnar Barnamenningarsjóðs ávörpuðu gesti og greindu frá úthlutun.

Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins með ályktun Alþingis á hátíðarfundi 18. júlí 2018. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Sjóðurinn var festur í sessi 23. maí 2023 með Þingsályktun um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024–2028.

Hægt er að lesa nánar um úthlutuð verkefni hér.

Ljósmynd frá úthlutun Barnamenningarsjóðs 2024 í Safnahúsinu.
Ljósmyndina tók Birgir Ísleifur.