Ævintýri á aðventunni Tónlistarleikhús

Ævintýri á aðventunni

Hnoðra í norðri skipa Þórunn Guðmundsdóttir tón- og leikskáld, Jenný Lára Arnórsdóttir leikstjóri, Björg Marta Gunnarsdóttir búningahönnuður, Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari og söngkonurnar Björk Níelsdóttir og Erla Dóra Vogler.

Tríóið Björk Níelsdóttir, Erla Dóra Vogler og Jón Þorsteinn Reynisson úr Hnoðra í norðri mæta í skóla með gleðilegan jólasöngleik – Ævintýri á aðventunni. Söngleikurinn er sniðinn að börnum á 6-10 ára aldri en ætti að koma öllum aldurshópum í jólaskap.

Verkið er stutt og laggott, eða um 30 mín að lengd, fyndið og efniviður sóttur í hinn undarlega íslenska jólasöguarf.

Í sýningunni skarast skáldskapur, ópera, söngleikur og gamanleikhús á stórskemmtilegan hátt. Höfundur og tónskáld er Þórunn Guðmundsdóttir, en aðalsmerki hennar eru frábærlega fyndnir og hnittnir textar með orðaleikjum auk þess sem tónlist hennar er mjög aðgengileg og yndisleg áheyrnar.

Auðvelt er að aðlaga sýninguna að því rými sem fyrir hendi er á hverjum stað. Til að gera sýninguna meðfærilegri og auðveldari í uppsetningu er ekki unnið með leikmynd eða ljós. Búningar Bjargar Mörtu Gunnarsdóttur skipta aftur á móti miklu máli og eru mikið fyrir augað. Flytjendur eru allt í senn vera leikmynd, leikarar og tónlistarflytjendur í verkinu sem leikstýrt er snilldarlega af Jennýju Láru Arnórsdóttur.

 

 

Upplýsingar
Hvað

Tónlistarleikhús

Hvenær

Desember 2022

Hvar

Norðurland

Hverjir

Sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri

Aldurshópur

1. - 6. bekkur

Aðstaða og tækni

Rými fyrir þrjá söngvara og áhorfendur.