Bæjarsirkusinn Dans

Bæjarsirkusinn

Bæjarsirkusinn er skemmtileg, spennandi og vönduð sirkussýning sem sýnd er innanhúss um allt land.

Þema sýningarinnar byggir á menningarheimi hins hefðbundna sirkus, þar sem hið ótrúlega og hættulega gerist í bland við grín og glens. Í sýningunni birtast þekktar stereo-týpur úr sirkusheiminum, svo sem línudansmær, loftfimleikafólk, ofurhugi og ljónatemjari með ljónin sín, sem á snjallan hátt geta nú heimsótt smærri bæi íslensku landsbyggðarinnar og skemmt þar börnum á breiðum aldri. Sýningin er á vegum Sirkus Íslands og er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Hún var frumsýnd í byrjun mars 2019 og sýningartímabil stendur nú yfir, en sýningin er sýnd á Vesturlandi, Suðurlandi og Vestfjörðum vorið 2019.

List fyrir alla og BRAS (Barnamenningarhátíð á Austurlandi) taka nú höndum saman og bjóða ausfirskum krökkum á Bæjarskirkusinn í september.

Verkinu er ætlað að gera sirkus að hluta af menningarflóru landsbyggðarinnar, og þá sérstaklega smærri bæja þar sem sirkus hefur sjaldan eða aldrei sést og íbúar taka slíkum uppákomum fegins hendi. Sirkuslistin er enn að taka sín fyrstu skref á Íslandi og lítum við á verkefnið Bæjarsirkusinn sem mikilvægt skref í að kynna alla landsmenn fyrir þeirri hrífandi og fjölbreyttu listgrein sem sirkusinn er. Sýningin leikur sér með þann efnivið sem þemað býður upp á og nýtir leiklist, söng og snjallar rýmislausnir til að endurvekja töfra hins gamla sirkus í nýju ljósi og aðstæðum. Bæjarsirkusinn er fimm manna 55 mínútna löng sýning sem nýtir loftfimleikabúnað, ljós- og hljóðbúnað í eigu Sirkus Íslands.

 

Upplýsingar
Hvað

Sirkus

Hvenær

10 .- 12. september 2019

Hvar

Austurland - Fáskrúðsfjörður, Eskifjörður og Egilsstaðir

Hverjir

Sirkus Íslands

Aldurshópur

1.-10. bekkur

Aðstaða og tækni

Íþróttahús, rafmagn, 7 m x 6 m x flötur með lofthæð 5,5 m