Búkolla Brúðusýning-brúðugerð

Búkolla

Handbendi Brúðuleikhús, atvinnu(brúðu)leikhús Norðurlands vestra kynnir nýja brúðuleikgerð þjóðsögunnar vinsælu – Búkollu.

Þegar mjólkurkýrin á bænum týnist þarf strákurinn að fara og finna hana. Hann fer um fjöll og dali, og fram á sævibarða kletta. Það sem hann uppgötvar mun breyta lífi hans. Þetta er saga um mikla vináttu, göldrótta kú og hrekkjótt tröll; sögð með handsmíðuðum brúðum. Búkolla hentar vel fyrir skóla, bókasöfn, menningarmiðstöðvar og hátíðir.

Sviðið er lítið og færanlegt, tæknikröfurnar eru engar, svo sýninguna er hægt að setja upp í minnstu leikskólunum – eða heima í stofu hjá þér!

Handbendi Brúðuleikhús, frá Hvammstanga, er atvinnu(brúðu)leikhús Norðurlands vestra. Stofnað af Gretu Clough, fyrrum listamanni hússins hjá hinu virta Little Angel Theatre í London. Handbendi semur sýningar fyrir alla aldurshópa sem fara leikferðir innanlands og utan

Sýningin er 20 mínútna löng, og með fylgir klukkustundarlöng brúðugerðarsmiðja þar sem börnin fá að búa til einfalda brúðu úr efnivið sem fellur til á flestum heimilum.

Með fylgir ítarefni fyrir skóla og bókasöfn og í því má finna tillögur um leiki og föndur sem hafa það að markmiði að viðhalda því sem börnin lærðu í vinnusmiðjunni og dýpka lærdómsupplifun þeirra.

Þróun og sköpun sýningarinnar Búkollu var styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands vestra og Selasetri Íslands.

Upplýsingar
Hvað

Brúðusýning og brúðusmiðja

Hvenær

9. - 11. október 2018

Hvar

Vík, Hofgarður, Kirkjubæjaklaustur

Hverjir

Handbendi. Greta Clough.

Aldurshópur

1. - 6. bekkur

Aðstaða og tækni

Sýningin: Rými fyrir leikrit og áhorfendur (lágmarks leikrými er 2m x 2m) Á vinnustofunni þarf að vera pláss, borð og stólar sem duga fyrir þáttakendur hverju sinni. Það er engin þörf á ljósabúnaði eða öðrum tæknibúnaði. Skólinn, eða hver sá sem hýsir vinnusmiðjuna, þarf að skaffa tól til handíða svo sem öryggisskæri, pappír, og ritföng. Annað kemur Handbendi með. Það tekur u.þ.b. 30 mínútur að gera sýninguna klára eftir að á sýningarstað er komið. Á milli sýningar og vinnusmiðju skal vera 10-15 mínútna hlé, svo leikarinn geti fengið sér vatnsglas og breytt rýminu ef með þarf.