„ELDBLÓM X ÞYKJÓ  – Hvernig dans varð vöruhönnun“ Hönnun og dans

„ELDBLÓM X ÞYKJÓ  – Hvernig dans varð vöruhönnun“

Geta blóm sprungið út á himninum? Getur manneskja breytt sér í flugeld?

Börnum í 4.-6 bekk er boðið í heillandi ferðalag fyrir öll skilningarvitin. Viðburðurinn hefst með einleik Sigríðar Soffíu Níelsdóttur um Eldblóm – óvæntu stefnumóti flugelda og blóma. Sögustundin er brotinn upp með ilmhugleiðslu og danspásu áhorfenda og endar á skapandi listsmiðju með ÞYKJÓ hönnunarteyminu.

Nemendur kynnast hvernig frjóar hugmyndir geta hoppað á milli listforma og hönnunargreina, allt frá dansverkum til flugeldasýninga, ilmhönnunar og landslagsarkitektúrs. Hér er á ferðinni þörf kynning á frumkvöðlafærni, hönnunarhugsun og þverfaglegu samstarfi lista- og vísindafólks.

Nöfnurnar Sigga Soffía og Sigga Sunna leiða hér saman hesta sína í viðburði sem hefur notið mikilla vinsælda á Hönnunarsafni Íslands vorið 2024. Þær hafa báðar viðamikla reynslu af listviðburðum og skapandi smiðjum fyrir börn.

Nánar um Siggu Soffíu:

Sigríður Soffía Níelsdóttir útskrifaðist sem listdansari frá Listaháskóla Íslands árið 2009, þar sem hún sótti einnig nám í sirkúslistum við Ecole Superior des Arts de Cirque í Brussel. Árið 2020 útskrifaðist hún með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, eftir að hafa átt og rekið eigið fyrirtæki í mörg ár, Níelsdætur og nýsköpunarfyrirtækið Eldblóm. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir störf sín, en þeirra á meðal eru Íslensku bjartsýnisverðlaunin á Bessastöðum árið 2023, Menningarverðlaun DV árið 2013 og tilnefningar til Grímunnar, sviðslistaverðlauna Íslands. Hún var nýverið útnefndur bæjarlistamaður Seltjarnarnesbæjar.

Nánar um Eldblóm:

Eldblóm er hugarverk Siggu Soffíu og fangar þverfaglega rannsókn hennar á tengslum flugelda og blóma. Japanska orðið yfir flugelda er Hanabi, „Hana“ þýðir eldur og „bi“ þýðir blóm – þeir tala því ekki um flugelda í beinni þýðingu heldur
 eld-blóm. Síðastliðin ár hefur Sigga Soffía unnið með þessi hugrenningatengsl í lofti og á láði. Hún hefur unnið flugeldasýningar fyrir Menningarnótt Reykjavíkur og í Barcelóna,  en samtímis kannað hvernig blómin sem flugeldarnir eru innblásnir af geta opnast hvert af öðru í sérhönnuðum blómabeðum fyrir Listahátíð í Reykjavík og fleiri menningarstofnanir. Nýjasta viðbótin í Eldblómaverkefninu eru ilmir, drykkjarföng, matvörur og fjölbreytt vöru- og upplifunarhönnun.

www.eldblom.is

Nánar um Siggu Sunnu:

Sigríður Sunna hefur lokið BATP gráðu frá Royal Central School of Speech and Drama í London í leikbrúðu- og sviðslistum (puppetry & performance art). Hún hefur einnig lokið BA gráðu í almennum bókmenntum og leikhúsfræði frá Háskóla Íslands og Universitá Karlová í Prag ásamt diploma í textílhönnun við Skals School of Arts and Crafts í Danmörku. Hún hefur starfað sem leikbrúðu-, leikmynda- og búningahönnuður fyrir Borgarleikhúsið, Þjóðleikhúsið, Leikfélag Akureyrar og víðar. Hún hefur einnig framleitt eigin sviðsverk eins og WIDE SLUMBER sem hlaut Music Theater Now verðlaunin 2015 og Nýjustu fréttir hlaut tilnefningu til Grímuverðlaunanna.

Nánar um ÞYKJÓ

Sigríður Sunna er stofnandi og listrænn stjórnandi ÞYKJÓ sem sérhæfir sig í þverfaglegum hönnunarverkefnum fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Hópurinn vinnur náið með lista- vísinda- og fræðasamfélaginu og hefur hannað og framkvæmt fjölbreyttar smiðjur, innsetningar og viðburði í samstarfi við söfn og menningarstofnanir. Þykjó hefur verið tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands í tvígang, árið 2021 og 2022 og hlutu tilnefningu til alþjóðlegu YAM verðlaunanna árið 2023.

www.thykjo.com

Umsagnir kennara:

„þið hafið einstakt lag á að ná til barna – þau hlusta ekki alltaf af svona rosalega mikill athygli!“

„það er svo kærkomið hvernig börnin fá að upplifa með öllum skynfærum!“

Umsagnir nemenda:

„þetta er skemmtilegasta vettvangsferð sem við höfum farið í!“

 

„þetta er meira að segja skemmtilegra en handbolti!“

 

 

Upplýsingar
Hvað

Listasmiðja

Hvenær

Haust 2024

Hvar

Reykjanesbær - Vogar - Garður - Sandgerði

Hverjir

Sigríður Soffía Níelsdóttir og Sigríður Sunna Reynisdóttir

Aldurshópur

4. - 6. bekkur

Aðstaða og tækni

xx