Vorvindar íslandsdeildar IBBY voru veitt sunnudaginn 5. maí í Gunnarshúsi húsi Rithöfundarsambands Íslands. Árlega er veittar viðurkenningar fyrir framlög til barnamenningar. Að þessu sinni fékk barnamenningarverkefnið List fyrir alla viðurkenningu.
Hér má finna umsögn IBBY um verkefnin sem hlutu viðurkenningu
Krakkaklúbburinn Krummi, Listasafn Íslands við Tjörnina / National Gallery of Iceland by The Lake hlýtur Vorvinda fyrir framlag sitt til barnamenningar. Krakkaklúbburinn Krummi var stofnaður haustið 2018 og þar er í fyrirrúmi metnaðarfull og spennandi dagskrá þar sem fer saman innblástur og sköpun. Þannig skapar Krakkaklúbburinn Krummi nærandi og þroskandi umhverfi fyrir yngstu gesti sína. Þetta er glæsilegt og vel útfært verkefni sem auðgar bæði listlæsi og listsköpun barna.
Lestrarklefinn hlýtur Vorvindaviðurkenningu fyrir að gera barnabækur sýnilegri í bókmenntaumræðunni. Lestrarklefinn er með vandaðar umfjallanir um bækur, bókmenntir og lestur á vefsíðu sinni. Þar fjallað um allt frá harðspjaldabókum yngstu lesendanna til hrollvekjandi vampírusagna sem ætlaðar eru stálpuðum unglingum. Ritdómarar nálgast öll umfjöllunarefni af fullri virðingu gagnvart þeim og frá sínu persónulega sjónarhorni.
Elfa Lilja Gísladóttir hlýtur Vorvinda fyrir verkefnið List fyrir alla. Þetta metnaðarfulla verkefni jafnar aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Verkefninu er ætlað að veita börnum góða yfirsýn yfir vettvang lista og að kynna fyrir þeim fjölbreytileika listanna, íslenskum menningararfi og list frá ólíkum menningarheimum.
Nemendur og kennarar í 4. HA – 4. LBG og 4. HH í Hlíðaskóla hlutu Vorvinda fyrir verkefnið „Þín eigin skólasaga“. Nemendur skrifuðu þrjár bækur kjölfar heimsóknar í Norræna húsið á sýninguna Barnabókaflóðið og undir áhrifum bóka Ævars Þórs Benediktssonar. Þau héldu jafnframt útgáfuboð þar sem þau lásu upp úr bókunum þær leiðir sem boðsgestir völdu. Verkefnið einkennist af alúð, krafti og metnaði þar sem kennarar tóku sögugerð nemenda sinna í ævintýralegan farveg. Þau virkjuðu hugmyndaauðgi og sköpunarkraft þeirra og fóru með verkefnið langt út fyrir hefðbundinn kennsluramma fjögurra veggja skólastofunnar.
Íslandsdeild IBBY óskar verðlaunahöfum til hamingju og hvetur þá alla til frekari dáða.