Fjölbreytt listform og ólíkir menningarheimar

Almennt

List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum.

Stefnt er að því að á tíu ára grunnskólagöngu veiti verkefnið börnum góða yfirsýn yfir vettvang lista. Nemendur kynnast fjölbreytni listanna, íslenskum menningararfi og list frá ólíkum menningarheimum.

Á þennan hátt er menningarframboð aukið enn frekar og stuðlað að samstarfi listamanna og listahópa með börnum og ungmennum landsins þar sem gæði og fagmennska eru höfð að leiðarljósi.

Listviðburðirnir og listefnið skal í öllum tilfellum vera unnir af fagfólki og bestu mögulegu gæðum.

Á heimasíðu List fyrir alla má finna:

  • Listviðburðir – yfirlit yfir þá listviðburði sem standa grunnskólum landsins til boða hvert skólaár.
  • Listveitan – rafrænn miðill List fyrir alla og miðlar fjölbreyttu og faglegu listefni fyrir grunnskóla.
  • Menningarhús og söfn – upplýsingar um sem bjóða upp á listir og menningu fyrir og með börnum.

List fyrir alla er á forræði menningar- og viðskiptaráðuneytisins.

Leitast er við að gera allar listgreinar sýnilegar innan verkefnisins eins og kostur er.

Eftirfarandi skilgreining verður miðlað í gegnum verkefnið:

  • Sviðslistir (leiklist og dans)
  • Tónlist
  • Myndlist
  • Hönnun og byggingalist
  • Kvikmyndagerð
  • Bókmenntir

Menningararfurinn gengur þvert á allar listgreinar.

Markmið

Stefna stjórnvalda er að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista.
Markmið List fyrir alla tengjast markmiðum málaflokks 18, málefnasviðs 18.2, en þar er áhersla lögð á að landsmenn njóti menningar og lista og að þátttaka í menningar- og listastarfsemi verði almenn.

Markmið List fyrir alla:

1. Að veita börnum og ungmennum á Íslandi aðgang að menningarviðburðum í hæsta gæðaflokki óháð búsetu og efnahag og styrkja vitund barna og ungmenna um menningararfin
2. Að auka framboð og hvetja listafólk til að skapa vandaða og fjölbreytta listviðburði sem höfða til barna og ungmenna með ólíkan bakgrunn og áhugasvið.
3. Að auka fjölbreytni í skólastarfi, styrkja listfræðslu í skólum og efla tengsl grunnskólanna við listalíf í landinu.

Nánar um markmið 1.
Á hverju skólaári býður List fyrir alla grunnskólanemendum upp á vandaða listviðburði. Þannig stuðlar verkefnið að auknum möguleikum barna til upplifunar, listiðkunar og uppgötvunar á eigin listrænum hæfileikum í nánu samneyti við fagfólk í listum. Á tíu ára grunnskólagöngu öðlist nemendur góða yfirsýn yfir fjölbreytt listform og útfærslur frá mismunandi tímabilum og ólíkum menningarheimum.

Nánar um markmið 2.
Valnefnd skipuð fagmönnum velur árlega listverkefni. Áhersla er lögð á að verkefnin séu af mestu mögulegu gæðum og ávallt unnin af fagfólki sem fær þóknun fyrir sína vinnu. Þannig skapast formlegur starfsvettvangur fyrir fagfólk í listum á sviði barnamenningar.
Á þennan hátt er menningarframboð aukið sem og samstarf listamanna og listhópa við grunnskólanemendur þar sem gæði og fagmennska eru höfð að leiðarljósi.

Nánar um markmið 3.
Verkefnið stuðlar að samstarfi grunnskóla við aðila á sviði menningar og lista. Menningaruppeldi er eflt með framboði fjölbreyttra verkefna þar nemendur og starfsfólk grunnskóla kynnast ólíkum listformum.

Forsaga verkefnisins

Alþingi samþykkti 7. mars 2013 þingsályktunartillögu um menningarstefnu, sem mennta- og menningarmálaráðherra lagði fyrir þingið og var þetta í fyrsta skipti sem samþykkt er sérstök stefna íslenska ríkisins á sviði lista og menningararfs.  Stefnan snýr að málefnum lista og menningararfs og aðkomu ríkisins að þeim málaflokkum.  Í henni eru fjórir meginþættir lagðir til grundvallar: Í fyrsta lagi sköpun og þátttaka í menningarlífinu, í öðru lagi áhersla á gott aðgengi að listum og menningararfi, í þriðja lagi er undirstrikað mikilvægi samvinnu stjórnvalda við þá fjölmörgu aðila sem starfa á sviði menningar og loks er bent mikilvægi þátttöku barna og ungmenna í menningarlífinu.

Stefnan er sett fram í leiðarljósi stjórnvalda, sem eru sextán talsins og sex köflum með nokkrum markmiðum í hverjum og einum.  Kaflarnir heita:

  • Menningarþátttaka
  • Lifandi menningarstofnanir
  • Samvinna í menningarmálum
  • Ísland í alþjóðasamhengi
  • Starfsumhverfi í menningarmálum
  • Stafræn menning

Í ágúst 2013 skipaði mennta – og menningarmálaráðuneytið starfshóp til þess að  gera tillögur um aðgerðaáætlun um menningu bara og ungmenna. List fyrir alla er ein af grunntillögum starfshópsins.

Fyrirmyndir og góð reynsla af sambærilegum verkefnum má finna víða hjá nágrannlöndum okkar.  Sambærilegt verkefni, smærra að gerð, hefur í raun verið við lýði hérlendis frá árinu 1992 undir nafninu Tónlist fyrir alla – Skólatónleikar á Íslandi og byggir List fyrir alla að töluverðu leyti á þeirri dýrmætu reynslu sem hlotist hefur í gegnum það verkefni.

Barnamenning

Barnamenningu er oft skipt í þrjá flokka:

(a) menning fyrir börn, (b) menning með börnum og (c) menning sköpuð af börnum.

List fyrir alla leggur megináherslu á menningu fyrir börn og menningu með börnum.

Áherslan er á listamanninn/mennina sem búa til og skapa listverkefni fyrir börn annars vegar og með börnum hins vegar.

Menning sköpuð af börnum er stundum nefnd leikjamenning barna. Það er sú menning sem verður til innan barnahópsins í umhverfinu, oft sjálfsprottin og án tilstuðlunar hinna fullorðnu.

Samstarf

Tryggja þarf samtal allra aðila sem koma að framkvæmd verkefnisins; ráðuneytið, sveitafélög, skólastjórnendur, kennarar, börn,  ungmenni, listastofnanir og listamenn.

Verkefnastjóri ber ábyrgð á að upplýsa og veita þjónustu til allra sem koma að List fyrir alla og sjá til þess að verkefnið sé faglegt og gangi lipurlega fyrir sig.

Í gegnum List fyrir alla opnast nýir möguleikar á samstarfi og samvinnu milli skóla, listamanna og listastofnana. Mikilvægt er einnig að eiga í góðu samstarfi við þá sem eru í forsvari fyrir menningu í hverjum landshluta.  Verkefninu er ætlað að vera mikill stuðningur við starfandi listgreinakennara og mikilvægt er að vera í góðu samstarfi við þá.

List fyrir alla mun þegar fram í sækir einnig leita eftir samstarfi við háskólastofnanir og rannsóknarstofur á sviði lista og listkennslu og hvetja til og vera í samstarfi um rannsóknir tengdum barnamenningu.

Opna skal fyrir möguleika á samstarfi við erlent listafólk og krydda framboðið reglulega með viðburðum erlendis frá.

Huga þarf að því að viðburðir á vegum Listar fyrir alla skilji sem mest eftir sig í hverju skólasamfélagi. Það að auka samstarf við menningarstofnanir og listamenn, miðla námsefni og fá heimsóknir listafólks í  skóla getur reynst mikilvæg viðbót við endurmenntun og starfsþróun kennara. Þetta má styrkja meðal annars með fylgigögnum, námsefni tengdu viðburðunum, upptökum eða öðru stafrænu efni auk þess sem einstökum verkefnum geti jafnvel fylgt stutt námskeið fyrir kennara.

Menningartenglar

Miðlun upplýsinga er mikilvægur þáttur í öllu samstarfi. Þar gæti hlutverk menningartengils orðið mikilvægt til að brúa bil skólans við List fyrir alla og jafnvel fleiri skipuleggjendur listviðburða. Æskilegt er að um verði að ræða fast netfang í hverjum skóla (til dæmis menningartengill@xxskoli.is) sem ákveðinn starfsmaður hverju sinni hefur umsjón með.

List fyrir alla sem og menningarstofnanir fá þannig greiðan farveg til miðlunar upplýsinga inn í skólana. Með tímanum getur menningartengiliður orðið hluti af stærra neti, haft áhrif á verkefnið og það hvernig skólinn nýtir sér heimsóknir og framlag listamanna og styrkt þannig og aukið listrænar áherslur í skólastarfi. 

Fyrir skóla

LFA – Handbók fyrir grunnskóla

Skólinn gegnir lykilhlutverki í List fyrir alla. Ávallt skal hugsa heimsóknir sem viðbót við þá listgreinakennslu og viðburði sem þegar eru fyrir hendi innan skólans. Skólinn hefur alla möguleika á að víkka út og vinna með heimsóknina því listina má bæði nálgast sem viðfangsefni, aðferð og/eða upplifun.

Skólinn ber ábyrgð á því hvernig tekið er á móti listafólki. Hann býður listafólk velkomið og er í hlutverki gestgjafa. Honum ber að miðla upplýsingum um fjölda barna, stærð sýningarýmis og annan aðbúnað svo sem skjávarpa,/sýningartjald,  hljóðkerfi og rafmagn og reynir að koma til móts við þarfir listafólksins að eins miklu leiti og mögulegt er.

Skólastjórnendur og kennarar geta stutt við verkefnið með því að láta vita hvers konar viðburði þeir myndu vilja sjá í List fyrir alla og með því að miðla af reynslu sinni eftir heimsóknir.

Fyrir listamenn

LFA Handbók fyrir listamenn

Hlutverk listamanna og liststofnana getur verið með ýmsum hætti eftir eðli verkefna.
Í einhverjum tilfellum bjóða listamenn/listastofnanir fram tilbúin verkefni til dreifingar út í skólana og í öðrum tilfellum verkefni mótuð í samstarfi við List fyrir alla.

Listamenn fara í gegnum ákveðið ferli áður en lagt er af stað. Mikilvægt er að allar upplýsingar um verkefnið liggi hjá verkefnastjóra, svo sem ferðatilhögun, upplýsingar um þátttakendur, verkefnið, myndir og kynningarefni fyrir heimasíðu og miðlun ítarefnis ef um slíkt er að ræða.

Listverkefnið er sýnt fagaðila og verkefnastjóra sem leiðbeina og rýna til gagns um það sem betur má fara varðandi miðlunarþáttinn með það að markmiði að vanda til verka eins og kostur er.

Aðstæður eru mismunandi og geta í senn verið ögrandi, ólíkar og skemmtilegar og þurfa listamenn að vera viðbúnir að mæta ólíkum aðbúnaði í hverri heimsókn. Einnig ber þeim að skila samantekt eftir hverja ferð þar sem tekið er saman hvernig til tókst, upplifun þeirra af heimsóknunum og tillögur til úrbóta.

Hér á eftir eru nokkur dæmi um hvernig haga mætti framkvæmd á ólíkum verkefnum í List fyrir alla. Möguleikarnir eru auðvitað mun fleiri. Þessi dæmi eru nefnd til skýringar.

Listviðburður í skóla

Skólum eru send listverkefni, listamennirnir ferðast frá einum skóla til annars og ná þannig að sýna öllum grunnskólanemendum á heilu landssvæði listviðburð.

Listviðburður í menningarhúsi

Nemendur heimsækja listviðburði í menningarhús. Nemendahópar geta verið blandaðir í aldri frá 1. – 10. bekk og ólíkir í nemendafjölda, tekið er mið af aðstæðum á hverjum stað.

Listamannadvöl í skóla

Listamaður/menn heimsækja bæjarfélag/sveitafélag þar sem þeir hafa aðstöðu í skóla eða í rými sem bæjarfélagið leggur til miðað við þarfir listaverkefnis. Listamenn dvelja meðal barna, það er vinna með nemendum. Verkefnið getur tekið frá hálfum kennsludegi upp í heilan dag eða nokkra daga. Nemendahópar eru aldursblandaðir en þó oftar áhersla á ákveðið aldursstig. Stærri sveitafélög velja árganga til þátttöku, minni sveitafélög sameinast mögulega um þátttöku.

Listamaður í fóstri

Listamaður/menn koma með listverkefni í sama skólann í nokkur skipti; til dæmis þrisvar til fjórum sinnum yfir önnina og verkefnið endar mögulega á lokasýningu allra þátttakenda.  Niðurstöður verða líklega eins ólíkar og verkefnin eru mörg, þær geta til dæmis endað með tónleikum, myndlistarsýningu eða sviðslistasýningu þar sem listamaður leiðir verkefnið. Nemendur vinna á milli heimsókna sjálfstætt eða með sínum kennurum. Nemendahópar eru aldursblandaðir en þó oftar áhersla á eitt aldursstig.  Stærri sveitafélög velja árganga til þátttöku, minni sveitafélög sameinast mögulega um þátttöku.

Stafrænt samstarf við listastofnanir

Samstarf við listastofnanir þar sem miðlað er efni á vef stofnunarinnar ásamt ítarefni / fræðsluefni sem fylgt er eftir í skólum. Efni er  þannig aðgengilegt öllum á landinu.

Hægt er að fylgja efninu eftir með því að senda fagaðila út í skólana og vinna verkefni með nemendum eftir að hópurinn hefur séð efni á vefnum eða í skólastofunni.

Valnefnd

LFA – Viðmið og vinnureglur valnefndar

Vandað starf valnefndar hverju sinni er forsenda þess að List fyrir alla standi undir nafni. Valnefnd er
skipuð einstaklingum sem hafa faglegar forsendur og metnað til að meta viðburði af þekkingu og sanngirni.
Valnefnd gætir þess að viðburðir tengdir öllum listgreinum séu framkvæmdir á vegum List fyrir alla.
Valnefnd er skipuð til tveggja ára í senn, koma saman í mars/apríl ár hvert til að velja úr innsendum
umsóknum og gera tillögur um viðburði og áherslur.

Valnefnd er skipuð:
• tveimur fulltrúum frá Bandalagi íslenskra listamanna
• einum fulltrúa frá Kennarasambandi Íslands
• einum fulltrúa úr stjórn List fyrir alla
• verkefnastjóra List fyrir alla