Bæjarins besta eða BB á Ísafirði var mætt í Edinborgarhús ásamt þeim Óði, Flexu og félögum í Íslenska Dansflokknum í morgun 7. desember. Eftirfarandi grein er tekin af vef þeirra.
Það var þéttsetinn bekkurinn í Edinborgarsal í morgun er nemendur af yngsta stigi grunnskólanna í Súðavík, Bolungarvík, á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri komu þangað til að verða vitni að þeim Óði, Flexu og fleiri skondnum karakterum í dansverkinu „Óður og Flexa halda afmæli.“ Heimsókn Íslenska dansflokksins sem setur verkið upp er liður í verkefninu „List fyrir alla“ sem er ætlað að miðla listviðburðum um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.
Það voru um 100 börn á sýningunni í morgun og sennilega ekki stór hluti þeirra sem eru reglulegir gestir á danssýningum, þau voru þó engu að síður fullkomlega með á nótunum. Ekkert var talað í sýningunni en tjáð í gegnum líkamann með dansi og látbragði, og stundum með hljóðum hvað var að eiga sér stað, og var virkilega skemmtilegt að fylgjast með börnunum og sjá hvað dansleikhúsið var þeim aðgengilegt. Hlátrasköllin fylltu salinn æ ofan í æ og stundum mátti heyra þau segja upphátt í hrifningu sinni eitthvað um það sem var að eiga sér stað fyrir framan þau.
Stefnt er að því að List fyrir alla muni yfir tíu ára grunnskólagöngu veita börnum góða yfirsýn yfir vettvang lista er kynnt eru fyrir þeim ólík listform s.s.: Sviðslistir (leiklist og dans), tónlist, myndlist, hönnun og byggingalist, kvikmyndagerð og bókmenntir.
Eftir hádegið fóru svo um 140 nemendur úr Grunnskólanum á Ísafirði til að sjá sýninguna.
http://bb.is/Pages/26?NewsID=201229