24. september 2025

Svakalega lestrarkeppnin og uppáhaldsbækur ríkisstjórnarinnar

Eftirfarandi grein var birt á vef Stjórnarráði Íslands

List fyrir alla er verkefni á vegum menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins sem hefur það að meginmarkmiði að velja og miðla listviðburðum og menningu til barna og ungmenna óháð búsetu og efnahag. Svakalega lestrarkeppnin er eitt þessara verkefna sem List fyrir alla styður en það er lestrarkeppni fyrir grunnskóla landsins með það markmið að hvetja börn í 1. – 7. bekk til að lesa meira.

Keppnin hófst formlega í síðustu viku og stendur til 15. október, en 90 grunnskólar eru skráðir til leiks. Barnabókahöfundarnir Eva Rún Þorgeirsdóttir og Blær Guðmundsdóttir eru upphafskonur og verkefnastýrur verkefnisins sem nær hápunkti á degi íslenskrar tungu 16. nóvember nk. þegar tilkynnt verður um sigurvegara keppninnar í sjónvarpsþættinum Málæði sem sýndur verður á RÚV

Niður á strönd eða út í lönd?

Áhersla er lögð á að höfða til barna og fjölskyldna og hvetja sem flesta til að lesa meira. Burtséð frá skráningu í keppnina er um að gera að taka sér bók í hönd og berast með henni lóðbeint niður á strönd eða út í lönd!

Og af hverju þurfum við að lesa meira? Lestrarvenjur barna skipta miklu máli því þær efla tungumál, orðaforða og hugsun, en einnig hugmyndaflug, einbeitingu og hæfni til að setja sig í spor annarra. Með lestri læra börn að skilja tilfinningar og sjónarhorn, sem styrkir bæði námslegan og félagslegan þroska. Svo er það líka svo gaman!

Hér má nálgast lestrarhefti til að skrá mínútur. Einnig má nota Læsir snjallforitið til skráningar.

Þessar bækur lásu ráðherrar landsins sem börn

Mikið er til af frábærum barnabókum á íslensku svo engan þarf að skorta skemmtilegt lestrarefni. Það getur verið skemmtilegt að spyrja vini og vandamenn um uppáhalds barnabók þeirra og fá þannig hugmyndir að lesefni eða einfaldlega kynnast betur. Hver í fjölskyldunni skyldi kjósa spennusögur og hver vill helst hlæja upphátt á hverri síðu? Á þeim nótum deila ráðherrar í ríkistjórn Íslands hér uppáhaldsbarnabókum sínum frá því að þau voru í grunnskóla.

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra
Blómin á þakinu (1985) eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur.


Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra
Ronja ræningjadóttir (1981) eftir Astrid Lindgren í þýðingu Helgu Kress.


Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra
Geimstöðin í seríunni Ævintýri Tom Swift (1960) eftir Victor Appleton í þýðingu Skúla Jenssonar.


Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra
Alli, Nalli og Tunglið (1929) eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur.


Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
Hringadróttinssaga eftir J. R. R. Tolkien (1954-1955) í þýðingu Þorsteins Thorarensen


Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra

Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren (1973) í þýðingu Helgu Kress og Fimm bókaflokkurinn (1942-1963) eftir Enid Blyton í þýðingu Guðrúnar Kristínar Magnúsdóttur.


Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra

Palli var einn í heiminum eftir Jens Sigsgaard (1942) í þýðingu Þórarins Eldjárns.

Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra
Valsauga og Minnetonka eftir Ulf Uller (1947) í þýðingu Sigurðar Gunnarssonar.


Alma Möller, heilbrigðisráðherra
Salomón svarti eftir Hjört Gíslason (1960).

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra
Tinna-bækurnar eftir Hergé (1930-1976). Þýðendur: Loftur Guðmundsson og Þorsteinn Ó. Thorarensen