List fyrir alla og Listkennsludeild LHÍ eru reynslunni ríkari eftir frábæra daga með 9. bekkjar börnum Reykjanesbæjar. Um 250 krakkar unnu ásamt 18 listkennslunemum og kennurum grunnskólanna að verkefni um Dýrin mín stór og smá sem er þema Barnamenningarhátíðar í Reykjanesbæ sem fram fer næstu daga. Unnið var þvert á listgreinar í 6 skólum og var afraksturinn töfrandi.
Öflugir og kátir krakkar ásamt stoltum kennurum tóku á móti okkur og voru niðurstöður verkefnanna eins ólík og fjölbreytt og þau voru mörg. Unnið var með leir og verðlaust efni á skapandi og spennandi hátt. Búnar voru til vídeómyndir, frumsamið leikrit með rúllandi leikmynd og tónlistarflutning sem yngri samnemendur fengu notið. Farið var í vettvangsferðir í fjörur, Þekkingarsetur Reykjanesbæjar heimsótt og efniviður sóttur í nánasta umhverfi.
List fyrir alla þakkar frábært samstarf og óskar öllum þátttakendum til hamingju með frábæran afrakstur.
Gleðilega Barnamenningarhátíð Reykjanesbær.