25. febrúar 2025

Barnamenningarsjóður er nú opinn fyrir umsóknir

Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins með ályktun Alþingis á hátíðarfundi 18. júlí 2018. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Fyrir hverja?

Listafólk, félagasamtök og aðrir lögaðilar sem sinna menningarstarfi fyrir börn og ungmenni í samræmi við opinbera menningarstefnu. Til barnamenningar teljast verkefni á sviði lista og menningar sem unnin eru með virkri þátttöku barna og/eða fyrir börn.

Til hvers?

Barnamenningarsjóður Íslands naut framlaga af fjárlögum árin, 2019–2023, 100 millj. kr. á ári. Um opinbert átaksverkefni var að ræða, sem ætlað var að skjóta styrkari stoðum undir fjölbreytt menningarstarf í þágu barna og ungmenna til framtíðar. Með þingsályktun um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028 var Barnamenningarsjóður Íslands festur í sessi.

Hvað er styrkt?

Fjölbreytt verkefni og starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna. Verkefni sem auk þess stuðla að lýðræðislegri virkni barna í samfélaginu eða taka að öðru leyti mið af inntaki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hafa sérstakt vægi. Einnig er horft til verkefna sem efnt er til í samstarfi ólíkra aðila.

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur er 4. apríl 2025 kl. 15:00 og hægt er að sækja um á heimasíðu Rannís eða með því að smella hér.