Það var áhugavert að fylgjast með unga fólkinu í morgun þegar sýningin Dansaðu við mig á vegum Reykjavík dance festival var sýnd í nokkrum grunnskólum borgarinnar.
Þegar tónlistarmaðurinn Borkó spurði þau í kjölfar sýningar; var þessi danssýning öðruvísi en þið hafið séð áður, var svarið, JÁ. Hvernig þá? Tilfinningasöm. Þegar þau voru spurð um hvað sýningin var, stóð ekki á svari, um mann, um lífið, um fortíð og það að eiga sér draum.
Ármann Einarsson er þriggja barna faðir og býr á Akureyri. Hann er 51 árs gamall, 172 sentímetrar á hæð og með ansi myndarlega bumbu.
Fyrir fjórum árum síðan kom Ármann að máli við tengdadóttur sína, danshöfundinn Brogan Davison, og skýrði henni frá því að sig hefði alltaf dreymt um að dansa samtímadans á sviði. Úr varð að þau Brogan og Ármann sömdu dansverk sem þau frumsýndu á Akureyri árið 2013, en nú vill Ármann elta drauminn sem lengst og dansa fyrir sem flesta. Ármann hefur dansað yfir þriðja tug sýninga í sex mismunandi löndum og virðist draumurinn heldur betur vera að rætast. Nú fá grunnskólanemar í Reykjavík einstakt tækifæri til að upplifa þetta einlæga og bráðfyndna leikhúsverki um að þora láta drauma sína rætast. Er dans fyrir alla?