17. mars 2025

MEED í Toulouse, Frakklandi

List fyrir alla er þátttakandi í MEED verkefninu sem er samstarf evrópskra stofnana sem sérhæfa sig í tónlistarmenntun. Þátttakendur eru 15 stofnanir frá 8 löndum. MEED var stofnað árið 2020 af Topophone og er fjármagnað af Evrópu (Erasmus+).
Það voru þau Sigurður Ingi Einarsson og Ingibjörg Fríða Helgadóttir sem heimsóttu vinnustofuna síðastliðinn nóvember. Í maí halda þrír tónlistarkennarar, þau Þorbjörg Roach Gunnarsdóttir, EInar Indra og Höskuldur Eiríksson til Viljandi í Eistlandi þar sem þemað er; skipti á kennslufræðilegum tækjum og hljóðfærum sem auðvelda tónlistarnám: frá hefðbundnum aðferðum til notkunar stafrænna aðferða.

Þema MEED: Inngilding barna og ungmenna í tónlistarkennslu og þátttöku í tónlist útfrá félags-, efnahags- og svæðisbundnum áskorunum. 

Gefum Ingibjörgu Fríðu og Sigurði Inga orðið;

Í nóvember 2024 var önnur ráðstefna á vegum MEED verkefnisins haldin í Toulouse í Frakklandi. Gestgjafarnir voru Topophone samtökin sem sinna tónlistarkennslu og miðlun til barna og ungmenna í svokölluðum “priority neighborhoods” í Occitanie héraði Frakklands. “Priority neighborhoods” eru skilgreind af ríkinu sem svæði sem þurfa sérstakan stuðning, t.d. þegar kemur að efnahags- og félagslegum aðstæðum barna og fjölskyldna. Ísland tók í fyrsta skipti þátt í MEED í gegnum List fyrir alla og vorum við íslensku þátttakendurnir í verkefninu. 

Markmið fundarins voru:

  • Áhugaverðar umræður um hindranir í tónlistarnámi og mikilvægi réttar barna og ungs fólks til menningar. 
  •  Vinnustofur með áherslu á hlutverk kennara á svæðum sem þurfa sérstakan stuðning.
  •  Æfingar og vinnustofur þar sem lögð var áhersla á námsgleði og hlutverk fjölskyldna í tónlistarkennslu.

Fundinn sótti stór hópur verkefnastjóra, listafólks og kennara frá 8 löndum og stóð hann yfir í 4 daga. Þá daga sóttum við fyrirlestra, masterklassa og hringborðsumræður um alls kyns viðfangsefni sem tengdust þemanu. Við fengum smá innsýn inn í aðstæðurnar í hverju landi fyrir sig sem voru mjög ólíkar og margir komnir langt í þróun verkefna sem ná til þessara svokölluðu “priority neighborhoods”. Áskoranirnar voru sannarlega ólíkar í þessum löndum og margir komnir mun lengra í þessari vinnu en aðrir. 

Meðal áhugaverðra erinda, til að nefna einhver dæmi:

  • Sistema Cyprus- Understanding Trauma: Identifying, Facing, and Overcoming Children’s Trauma Through Music.
    Fyrirlestur um starfsemi El Sistema ungmennahljómsveitarinnar í Kýpur þar sem mikill straumur flóttafólks leggur leið sína þangað yfir Miðjarðarhafið.
  • Gobé – Becoming a mentor. How to teach kids to become the mentors of the next generation? 
    Sameiginlegt hugarflug þátttakenda um hvernig hægt væri að viðhalda áhuga barna og ungmenna af Róma uppruna í Ungverjalandi á sínum eigin menningararfi. Þetta var verkefni sem kom tímabundið inn í Róma þorp en leiðtogar þess vildu að það myndi eignast sjálfstætt líf í höndum heimafólks og leituðu ráða hjá hópnum um hvaða leiðir væri hægt að fara til þess. 
  • Music Generation Ireland – Finding the right ‘Pitch’: The use of music through sport to tackle social inclusion. 
    Írarnir kynntu mjög skemmtilegt verkefni þar sem þau notuðu vinsælustu íþrótt svæðisins sem unnið var með, Hurling, til að virkja krakka í tónlist.

Við erum mjög þakklát fyrir þessa innsýn, sáum margar aðferðir og leiðir til að ná til ólíkra hópa sem getur nýst okkur í okkar vinnu sem listafólk og miðlarar tónlistar. Vinnustofurnar kveiktu bæði nýjar hugmyndir og gáfu hugmynd um hvert Ísland gæti stefnt í þessum málaflokki og hvaða aðferðir hafa nýst vel. Það var líka mjög gaman að kynnast fólki og mynda tengsl við aðra sem deila sömu ástríðu fyrir tónlistarmiðlun og við.