Emmsjé Gauti leit við í Síðdegisútvarpinu og ræddi við Andra Frey og Hrafnhildi um Málæði og um það sem er á döfinni hjá honum.
Von er á nýju lagi með Gauta sem hann vann í samstarfi við nemendur í 10. bekk í Brekkuskóla á Akureyri. Samstarfið kemur til í gegnum verkefnið Málæði á vegum Listar fyrir alla þar sem unglingar landsins eru hvattir til að vinna með íslenskuna og vera skapandi í tali og tónum. „Þetta verkefni er einn af þessum þáttum sem er að innvikla börn inn í að semja músík og sýna hvernig lög eru búin til og hvað þarf að gera til að fullklára hljóðritun,“ segir Gauti.
„Ég fékk lag sem var stutt komið og fór og sýndi þeim hvað ég myndi gera ef ég væri leikstjóri í þessu verkefni,“ segir Gauti. „Það eru tveir strákar sem semja grunn og texta sem er fínn en ekki fullkominn og mér finnst nauðsynlegt í þessu öllu að uppbyggileg gagnrýni skipti miklu máli, ekki síst í listgreinum,“ segir hann. „Saman skrifum við lag frá grunni með beinagrind frá tveimur strákum og þetta var geggjað.“
„Við gerðum þetta á þremur tímum. Löbbuðum út með demó og ég mun fara með það til Vignis í Írafár og vinna áfram og niðurstaðan verður flutt í beinni útsendingu,“ segir Gauti.
„Það eru margir sem óttast að íslenska eigi undir högg að sækja,“ segir Gauti. Þar geti íslensk tónlist verið öflugt mótafl. „Íslensk popptónlist er rosa sterk og er sterk hjá ungu fólki. Við eigum að taka þátt í að styrkja þetta og stækka.“
Hægt er að lesa eða hlusta á viðtalið í heild sinni með því að smella á hlekkin hér.
Viðtalið við Emmsjé Gauta varðandi Málæði hefst á 30 mínútu í myndbandshlekknum neðst í fréttinni.