17. nóvember 2025

Öll börn með!

Þann 13. nóvember fór fram barnamenningarráðstefnan Öll börn með! á Akranesi. Ráðstefnan var afar vel sótt, en um 80 þátttakendur víðs vegar að af landinu mættu—listafólk, fulltrúar menningarhúsa og safna og menningarfulltrúar úr landshlutunum.
Logi Einarsson ráðherra menningar nýsköpunar og háskólaráðherra setti þingið sem var í öruggum höndum og umsjón Felix Bergssonar. Áhersla dagsins var lögð á stefnumótun í barnamenningu, en Vigdís Jakobsdóttir stýrði öflugri hópavinnu um það efni.
Jafnframt voru kynnt fjölbreytt og spennandi verkefni á sviði barnamenningar, þar á meðal barnamenningarhátíðir, Barnamenningarsjóður, List fyrir alla, Sögur, Svakalega sögur og Handbendi. Einnig voru kynntar niðurstöður nýrrar viðhorfskönnunar meðal skólastjórnenda og kennara í grunnskólum um List fyrir alla.
Gestir nutu frábærrar gestrisni heimamanna. Bæjarstjóri Akraness leiddi hópinn í léttan rúnt um bæinn og boðið var upp á sýningu í Breið og heimsókn í Akranesvita. Dagskránni lauk með spurningakeppni og skemmtilegri salsakennslu. Ráðstefnugestir voru sammála um að dagurinn hefði tekist einstaklega vel og stemningin var góð á heimleið.