Bækur breyta heiminum Ritlist

Bækur breyta heiminum

Við fyrstu sýn er bók bara bók, blaðsíður með svörtum línum sem mynda stafi. En um leið og maður opnar bók og byrjar að lesa stekkur maður inn í annan heim, nýja veröld með fólki, verum og fyrirbærum sem maður hefur kannski aldrei kynnst áður. Æðisleg bók er aldrei bara bók heldur getur hún verið magnaður töfragripur, galdrastafur til að breyta veröldinni til hins betra. Rithöfundarnir Eva Rún Þorgeirsdóttir og Sævar Helgi Bragason fjalla á fjörugan hátt um töframátt bóka og hvernig þær geta breytt heimi okkar.

Eva Rún Þorgeirsdóttir skrifar skáldsögur fyrir börn og hefur, m.a. sent frá sér þríleikinn um Lukku og hugmyndavélina. Meðfram ritstörfum kennir Eva Rún börnum ritlist og starfar við dagskrárgerð hjá KrakkaRÚV. Hún skrifar og framleiðir, m.a. þættina Úti í umferðinni og kemur einnig að gerð Stundarinnar okkar og Sögum. Eva Rún stýrir auk þess Verksmiðjunni, sem er nýsköpunarkeppni fyrir unglinga, og kennir börnum ritlist.

Sævar Helgi Bragason er margverðlaunaður fræðimaður og skrifar bækur fyrir börn og fullorðna. Hann hefur, m.a. sent frá sér bækurnar Svarthol og Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna. Sævar Helgi vinnur við dagskrárgerð á KrakkaRÚV þar sem hann les Krakkafréttir og er einn umsjónarmanna útvarps KrakkaRÚV. Hann var umsjónarmaður þáttanna Hvað höfum við gert? sem sýndir voru á RÚV og vöktu gríðarlega athygli hjá bæði börnum og fullorðnum.

Verð
40.000 kr.

Tímalengd
Ein kennslustund/ 40 mínútur

Pantanir
Allar pantanir berist á tinna@rsi.is. Nánari upplýsingar eru veittar í síma 568 3190.

 

Skáld í skólum

Á hverju hausti býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrár undir nafninu Skáld í skólum þar sem höfundar heimsækja skólana til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. Dagskrárnar í Skáld í skólum eru metnaðarfullar og fræðandi, höfundar koma í heimsókn til að tala um bækur og lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra og síðast en ekki síst til að smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði.

Í ár fara 6 skáld frá Höfundamiðstöð RSÍ í ævintýraleiðangur með nemendum og kennurum um undraheima bókmennta, þau gera tilraunir til að búa til vísindatrylli, uppgötva leynistaði þar sem maður getur verið maður sjálfur og þefa uppi kynngimagnaðar bækur sem geta breytt heiminum til hins betra.

Skáld í skólum er á sínu 14. starfsári og hefur fyrir löngu sannað sig sem ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins, en hátt í 70 mismunandi dagskár hafa orðið til innan vébanda verkefnisins frá því það hóf fyrst göngu sína 2006.

Höfundamiðstöð og Skáld í skólum njóta stuðnings Menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar.

Upplýsingar
Hvað

Bókmenntadagskrá

Hvenær

16. október til 15. nóvember 2019

Hvar

Um land allt

Hverjir

Eva Rún Þorgeirsdóttir og Sævar Helgi Bragason

Aldurshópur

5. - 7.bekkur

Aðstaða og tækni

Salur eða kennslustofa, hljóðkerfi með 2 hljóðnemum og tölva með skjávarpa sem skóli hefur til reiðu.