Svakalegar sögur Ritlist

Svakalegar sögur

Svakalegar sögur er 50 mín fyrirlestur fyrir krakka í 1.-10.bekk um hvernig allir geta fengið hugmyndir og búið til sögur – og hvers vegna það er svakalega mikilvægt að æfa ímyndunaraflið. Eva Rún Þorgeirsdóttir, rithöfundur, og Blær Guðmundsdóttir, teiknari, hafa báðar starfað við fjölbreytt verkefni tengd bókaútgáfu og barnamenningu og hafa síðastliðin tvö ár kennt rit- og teiknismiðjuna Svakalega sögusmiðjan í Borgarbókasafninu.

Í fyrirlestrinum Svakalegar sögur segja þær frá:

– hvernig þær kenna krökkum að hugsa skapandi og skrifa svakalegar sögur.

– af hverju það er mikilvægt að hugsa skapandi.

– hvernig hægt er að æfa sig í skapandi hugsun hvar og hvenær sem er.

– Segja frá og sýna verk í vinnslu.

– Í lok fyrirlestrarins búa þær til sögu með aðstoð krakkanna í salnum (mjög skemmtilegt!).

Eva Rún Þorgeirsdóttir er rithöfundur og skrifar bækur og handrit að sjónvarpsefni fyrir krakka. Hún hefur m.a. skrifað bækurnar um jólasveininn Stúf, fantasíuna Skrímslin vakna og hljóðbókina Sögur fyrir svefninn á Storytel, sem hlaut Íslensku hljóðbókaverðlaunin 2022.

Eva Rún hefur einnig unnið sem handritshöfundur, framleiðandi og leikstjóri sjónvarpsþátta fyrir KrakkaRÚV. Eva Rún stýrði framleiðslu á Stundinni okkar í tvo vetur og vann Edduna 2021 fyrir besta Barna- og unglingaefni ársins.

Blær Guðmundsdóttir er teiknari, barnabókahöfundur og grafískur hönnuður. Hún hefur myndlýst barna- og skólabækur þ.á.m. bækurnar um Stúf, Holupotvoríur og Dreddfúlíur. Árið 2019 sendi hún frá sér sína fyrstu frumsömdu bók, Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsippsúrumsipp – systurnar sem ætluðu sko ekki að giftast prinsum.

Blær vann FÍT-verðlaunin 2020 fyrir þessa frumraun sína og hlaut einnig tilnefningu til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar í flokki myndlýstra bóka.

Blær og Eva Rún stýrðu Meistarabúðum Sagna 2022 og 2023 fyrir 10-12 ára krakka sem komust áfram í keppninni Sögur verðlaunahátíð barnanna. Eva Rún og Blær fengu Vorvindaviðurkenningu IBBY á Íslandi 2023, fyrir framlag sitt til barnamenningar með Svakalegu sögusmiðjunni.

 

 

Upplýsingar
Hvað

Svakalegar sögur

Hvenær

Haust 2023

Hvar

Vestfirðir

Hverjir

Eva Rún Þorgeirsdóttir
Blær Guðmundsdóttir

Aldurshópur

Allur aldur

Aðstaða og tækni

Skjávarpi