Veður fegurð og fjölbreytileiki Listasmiðjur

Veður fegurð og fjölbreytileiki

Sjónlistakonurnar Alda Rose Cartwright og Kristín Bogadóttir verða með smiðjur í skólum á norðanverðum Vestfjörðum í október þar sem unnið verður með veðurathuganir og lífríki norður Atlantshafsins sem innblástur. Leitast er við að tengja við nærumhverfi nemendanna og skoða einkenni þess.

Þátttakendur skoða eigin upplifun á veðri og einnig hugtök og manngerð kerfi sem tengjast veðri og veðurlýsingum. Unnið er á skapandi hátt með fjölbreyttan efnivið að tvívíðum og þrívíðum verkum. Skoðuð orð sem við notum um veður og lært að lesa veðurkort.  Áhersla er á líffjölbreytileika og vistkerfi hafsins og hvaða dýrategundir standa frammi fyrir ógnunum af völdum loftslagsbreytinga.

Þátttakendur rannsaka sitt eigið nærumhverfi og fjörur, teikna myndir af sjávardýrum og útfæra þær með mismunandi tækni.

Alda Rose er myndlistarkona og Kristín er ljósmyndari. Þær eru báðar með Master í listkennslu frá LHÍ og hafa tekið þátt í LÁN – listrænu ákall til náttúrunnar. Þær eru ástríðufullir náttúruunnendur og tvinna hér saman listræn verkefni og tengja við náttúruna, nærumhverfið og samfélagið á Vestfjörðum.

Kristín Bogadóttir hefur sjálf unnið listrannsókn, þar sem hún tók ljósmyndir og viðtöl við veðurathugunarfólk á átta stöðum á landinu. Verkið Dálítill sjór var sýnt í Þjóðminjasafni Íslands í maí 2016. Kristín býður upp á vinnustofur þar sem nemendur þjálfast í læsi á umhverfi sitt. Hún leggur áherslu á að markvisst sé unnið með málefnið í skólakerfinu og þá ekki síst í gegnum listir sem getur svo stuðlað að auknu næmi fyrir umhverfi og náttúru.

Alda Rose Cartwright er myndlistarmaður með BFA frá Academy of Art University frá San Francisco þar sem hún lagði áherslu á grafík og málun. Náttúran og lífríkið hefur ávallt verið innblástur Öldu í sinni listsköpun og undanfarin ár hefur hún unnið með hugmyndir um hið hverfula lífríki á norðurslóðum.

Í list sinni fjallar hún um náttúrufyrirbæri í samhengi minninga sem/og áhrif og samspil manna við náttúruna.

Alda hefur mest unnið vatnslita-, olíu- og grafíkverk.

Alda útskrifaðist einnig frá LHÍ með M.art.ed í listgreinakennslu og hefur síðan haldið ótal smiðjur á eigin vegum, söfnum og í gegnum verkefnið LÁN á vegum Reykjavíkurborgar.

Alda leggur áherslu á eflingu á umhverfisvitund barna og nýtir einnig mismunandi grafík aðferðir í kennslu.

Upplýsingar
Hvað

Listasmiðjur

Hvenær

25.- 29. október 2021

Hvar

Súðavík, Ísafjörður, Bolungarvík, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri

Hverjir

Kristín Bogadóttir
Alda Rose Cartwright

Aldurshópur

Allur aldur

Aðstaða og tækni

Myndlistarstofa, skæri, þekjulitir, vatnslitir, valsar, þrykklitir og pappír o.fl.