Komdu nú að krunkast á! Ritlist

Komdu nú að krunkast á!

Í lifandi og skemmtilegri dagskrá sækja ljóðskáldið Aðalsteinn Ásberg og söngkonan Þorgerður Ása í þjóðlegan sagna- og söngvasjóð þar sem krummavísur og sagnir tengdar hrafninum, eftirlætisfugli margra barna og fullorðinna, eru í fyrirrúmi. Áhorfendur taka virkan þátt og fá innsýn í það hvernig sagan og menningin endurspegla heiminn allt í kringum okkur. Eiga krummafótur og krummaskítur til dæmis eitthvað sameiginlegt?

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson er löngu landskunnur fyrir ritverk sín og tónlist, ekki síst barnaplöturnar Berrössuð á tánum og Bullutröll, sem hafa lengi notið mikilla vinsælda, en hann hefur líka sent frá sér fjölda barnabóka, bæði sögur og bundið mál, m.a. Kvæðið um Krummaling og Segðu mér og segðu …

Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir er þjóðfræðingur að mennt en stundaði auk þess nám í Tónlistarskóla FÍH og Norræna vísnaskólanum í Kungälv í Svíþjóð. Hún hefur víða komið fram á tónleikum hérlendis og á Norðurlöndum og er önnur helft dúósins Vísur og skvísur.

Verð
40.000 kr.

Tímalengd
30 mínútur

Pantanir
Allar pantanir berist á tinna@rsi.is. Nánari upplýsingar eru veittar í síma 568 3190.

Skáld í skólum

Á hverju hausti býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrár undir nafninu Skáld í skólum þar sem höfundar heimsækja skólana til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. Dagskrárnar í Skáld í skólum eru metnaðarfullar og fræðandi, höfundar koma í heimsókn til að tala um bækur og lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra og síðast en ekki síst til að smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði.

Í ár fara 6 skáld frá Höfundamiðstöð RSÍ í ævintýraleiðangur með nemendum og kennurum um undraheima bókmennta, þau gera tilraunir til að búa til vísindatrylli, uppgötva leynistaði þar sem maður getur verið maður sjálfur og þefa uppi kynngimagnaðar bækur sem geta breytt heiminum til hins betra.

Skáld í skólum er á sínu 14. starfsári og hefur fyrir löngu sannað sig sem ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins, en hátt í 70 mismunandi dagskár hafa orðið til innan vébanda verkefnisins frá því það hóf fyrst göngu sína 2006.

Höfundamiðstöð og Skáld í skólum njóta stuðnings Menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar.

Upplýsingar
Hvað

Bókmenntadagskrá

Hvenær

16. október til 30. nóvember 2019

Hvar

Höfuðborgarsvæðið

Hverjir

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir

Aldurshópur

Leikskólar

Aðstaða og tækni

Salur eða kennslustofa