Björt í sumarhúsi Söngleikur

Björt í sumarhúsi

Björt í sumarhúsi er söngleikur fyrir börn eftir Elínu Gunnlaugsdóttur við texta Þórarins Eldjárns sem byggir á ljóðum úr bókinni ,,Gælur, fælur og þvælur”.

Textar og ljóð Þórarins Eldjárns eru fagurt dæmi um kjarnyrta íslensku og kennir okkur um fjölbreytileika tungumálsins. Söngleikurinn kemur jafnframt inn á þjóðtrú um drauga og óvætti, og þjóðlagið ,,Það var barn í dalnum” er sungið í sýningunni. Lifandi tónlistarflutningur á sviðinu er  mikilvægur þáttur í sýningunni og tónlistin létt og leikandi.

Söngleikurinn Björt í sumarhúsi var frumsýndur á Myrkum músíkdögum í Hörpu (Kaldalóni) árið 2015 við frábæra aðsókn  en tvær aukasýningar voru sýndar í Tjarnarbíói í kjölfarið þar sem fullt var út úr dyrum. Leikstjóri var Ágústa Skúladóttir og flytjendur alls átta, fjórir söngvarar, þar af eitt barn, og fjórir hljóðfæraleikarar. Leikmynd, búninga og leikmuni gerði Kristína Berman.

Björt snýr nú aftur í endurgerðri uppsetningu sem er styttri og minni umfangs en upphaflegi söngleikurinn. Flytjendur eru nú tveir, söngvari og píanisti.  Björt segir söguna, leikmunir eru í einni ferðatösku sem hún kemur með inn á sviðið. Um leið og hún segir sögu af því þegar hún fór í sumarbústað með afa og ömmu tínir hún eitt og annað upp úr töskunni t.d. fiskiflugu og kónguló. Báðir flytjendur taka þátt í sprellinu á sviðinu með ýmsum hætti.

Söngleikurinn Björt í sumarhúsi hefur komið út á bók útgefinni af Töfrahurð. Bókin er fallega myndskreytt af Sigrúnu Eldjárn og geisladiskur með sögunni og tónlistinni fylgir bókinni. Hér kemur myndlistin við sögu og með bókinni má kynna börnin fyrir söngleiknum fyrir fram og jafnvel nýta hana í íslenskukennslu

Hér er texti og myndband á sönginn sem við biðjum alla að læra til að geta sungið með okkur þegar við komum í heimsókn til ykkar þann 21. mars næstkomandi.
Við hlökkum til að sjá og hitta ykkur.

Margt er hægt að heyja hér
heims um fögur ból.
Oní skúffu á ég mér
ólíkindatól.

Tólið síst til einhvers eins
á að nýta sér.
Jafnt til alls sem ekki neins
er það virðist mér.

og…. hér má heyra úrdrátt úr sögunni.

 

Upplýsingar
Hvað

Söngleikur fyrir börn

Hvenær

21. mars 2018 Grindavík og Hafnarfjörður

Hvar

Suðurland

Hverjir

Valgerður Guðnadóttir söngur
Hrönn Þráinsdóttir píanó

Aldurshópur

1.-3. bekkur

Aðstaða og tækni

Flygill/píanó