Arndís og Rán bjóða nemendum að stíga um borð og á akstrinum velta þær fyrir sér hlutverki listarinnar – og listamanna – í stóra samhenginu. Af hverju njótum við listar? Er hún afþreying eða eitthvað meira? Hvaða fólk hefur leyfi til þess að láta rödd sína hljóma og á hvaða raddir eigum við að hlusta? Og hvað kemur það sjávarspendýrum við?
Til þess að heimsóknin nýtist sem best og að nemendur fái sem mest út úr henni þurfa kennarar að undirbúa heimsóknina áður en við komum, en við munum senda öllum kynningu. Jafnframt munum við skilja eftir ítarefni (bókalista, verkefni, kveikjur) til þess að hægt sé að vinna úr heimsókninni þegar við höfum kvatt skólann, þannig að nemendur standi eftir með afurð eigin sköpunarkrafts.
Gert er ráð fyrir því að heimsóknin sjálf sé um 40 mínútur. Við komum með glærukynningu á USB lykli, svo við þurfum aðgang að skjávarpa og tölvu. Jafnframt þurfum túss- eða pappírstöflu. Ef hópurinn er stór þurfum við hljóðkerfi, en treystum starfsfólki skólanna til þess að meta þörfina á því.
Rán Flygenring er heimspekingur. Sennilega hefur hún alltaf verið heimspekingur, en hún hefur líka nýlegt háskólapróf upp á vasann þess efnis. Hún er líka með fleiri próf, eins og til dæmis í köfun. En aðallega er Rán listamaður. Hún teiknar og hún skrifar, hún gefur út bækur, hún heldur listsýningar, hún heldur fyrirlestra og hún reynir að skilja heiminn. Nýjasta bókin hennar er Tjörnin, sem vann Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrr í ár, sem og Bóksalaverðlaunin fyrir síðustu jól. Rán hefur líka fengið fullt af öðrum verðlaunum. Það er alveg að koma ný bók frá henni sem heitir Blaka. Hún er um myrkrið. Og sennilega svolítið um heimspeki. Það er vandinn við heimspeki – hún er svolítið eins og óstýrilátur kettlingur; hún hefur tilhneigingu til að blanda sér í allt.
Arndís Þórarinsdóttir er bókasafnskona sem hefur ekki unnið á bókasafni í mörg ár. Hún ætlaði að verða lögfræðingur, því henni fannst gaman að rífast, en komst svo að því að henni fannst ekki gaman að lesa lögspeki. Henni finnst meira gaman að búa hluti til. Hún fór í háskóla í mörg ár til þess að reyna að fá formlegt leyfi til þess – en fattaði svo að hún yrðibara að láta vaða. Nýjasta bókin hennar heitir Morð og messufall og er glæpasaga fyrir fullorðna sem hún skrifaði með vinkonu sinni. Í haust kemur út unglingabók sem heitir Sólgos, sem fjallar um sólgos. Sennilega er hún líka svolítið um heimspeki. Arndís reyndi að æfa fótbolta þegar hún var barn og átti sömuleiðis niðurlægjandi tímabil í jazzballettnámi, en skemmtilegast fannst henni í Heimspekiskólanum. Arndís var þannig barn.
LIstaspjall
Haustið 2025
Suðurland
Rán Flygenring og Arndís Þórarinsdóttir
8. - 10. bekkur
Tölva, skjávarpi, pappírstafla, túss, mögulega hljóðkerfi - fer eftir fjölda barna.