Svakalegar Sögur Bókmenntir

Svakalegar Sögur

Hvaðan koma hugmyndir? Er hægt að æfa ímyndunaraflið? Getur hver sem er búið til sögur? 

Svakalegar sögur er 60 mín smiðja fyrir krakka þar sem fjallað er um hvernig hægt er að fá hugmyndir og búa til svakalega skemmtilegar sögur. Hópurinn býr til sögupersónu saman og semur um hana sögu. 

Smiðjan hentar krökkum í 3.-6. bekk (Getur gengið fyrir yngsta og elsta stig í grunnskóla, t.d. í minni skólum).

Eva Rún Þorgeirsdóttir, rithöfundur, og Blær Guðmundsdóttir, teiknari, hafa báðar starfað við fjölbreytt verkefni tengd bókaútgáfu og barnamenningu og hafa síðastliðin þrjú ár kennt rit- og teiknismiðjuna Svakalega sögusmiðjan í Borgarbókasafninu, sem er klúbbur fyrir krakka sem vilja teikna og skrifa sögur. 

Þær standa fyrir verkefninu Svakalega lestrarkeppnin – sem er lestrarsamkeppni fyrir 1.-7.bekk, þar sem allir skólar á landinu keppa um það hver lest mest tímabilið 15.september til 15.október. 

Í smiðjunni segja þær frá:

  • hvernig krakkar geta hugsað skapandi og búið til svakalegar sögur.
  • hvernig hægt er að fá hugmyndir hvar og hvenær sem er.
  • af hverju það er mikilvægt að LESA BÆKUR til að búa til sögur.
  • hvernig krakkar geta sent sínar eigin sögur inn í verkefnið Sögur og tekið þátt í Svakalegu lestrarkeppninni.
  • segja frá og sýna eigin verk og verk í vinnslu.

Eva Rún Þorgeirsdóttir er rithöfundur og skrifar bækur og handrit að sjónvarpsefni fyrir krakka. Hún hefur m.a. skrifað bækurnar um jólasveininn Stúf, fantasíurnar Skrímslin vakna og Hættuferð í Huldubyggð og einnig hljóðbókina Sögur fyrir svefninn á Storytel, sem hlaut Íslensku hljóðbókaverðlaunin 2022.
Eva Rún hefur einnig unnið sem handritshöfundur, framleiðandi og leikstjóri sjónvarpsþátta fyrir KrakkaRÚV. Eva Rún stýrði framleiðslu á Stundinni okkar í tvo vetur og vann Edduna 2021 fyrir besta Barna- og unglingaefni ársins.

Blær Guðmundsdóttir er teiknari, barnabókahöfundur og grafískur hönnuður. Hún hefur myndlýst barna- og skólabækur þ.á.m. bækurnar um Stúf, Holupotvoríur, Ég og sjálfsmyndin, Kærókeppnin og Orð eru ævintýri. Hún vann FÍT-verðlaunin 2020 fyrir sína fyrstu frumsömdu bók, Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsippsúrumsipp – systurnar sem ætluðu sko ekki að giftast prinsum og hlaut einnig tilnefningu til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar í flokki myndlýstra bóka. Blær gaf út þrautabókina Leyndardómar Valþjófsstaðahurðarinnar í samvinnu við Þjóðminjasafnið vorið 2025 og hlaut einnig tilnefningu fyrir myndlýsingu ársins í Sögum verðlaunahátíð barnanna fyrir Stúf og björgunarleiðangurinn.

Blær og Eva Rún hafa séð um Meistarabúðir Sagna 2022- 2024 fyrir 10-12 ára krakka sem komust áfram í keppninni Sögur verðlaunahátíð barnanna. Eva Rún og Blær fengu Vorvindaviðurkenningu IBBY á Íslandi 2023, fyrir framlag sitt til barnamenningar með Svakalegu sögusmiðjunni. Svakalega sögusmiðjan hefur hlotið styrki frá Barnamenningarsjóði og Bókasafnasjóði.

 

Upplýsingar
Hvað

Listasmiðja

Hvenær

Haust 2025

Hvar

Norðvesturland

Hverjir

Eva Rún Þorgeirsdóttir
Blær Guðmundsdóttir

Aldurshópur

3. - 6. bekkur

Aðstaða og tækni

Skjávarpi