Fræðakistillinn Myndlist

Fræðakistillinn

Fræðakistillinn inniheldur safn verkefna sem snerta á undrum og dásemdum eðlisfræðinnar. Tilgangurinn er að kynnast eðlisfræði á forsendum myndlistar og sköpunar. Um er að ræða farandverkefni ætlað elsta stigi en verkefnið getur einnig nýst öðrum aldurshópum.

Tengslin á milli lista og vísinda eru megin þema verkefnisins. Fjallað verður lauslega um helstu uppgötvanir og uppfinningar sem nútíma rafeindatækni byggist á og aðkomu skapandi hugsunar og uppgötvana í myndlist og vísindum. Í kistlinum er samansafn nokkurra lítilla verkefna sem styðjast við meðfylgjandi búnað auk mynda og texta til skýringar. Nemendur munu vinna verkefnin og skrásetja í formi texta og ljósmynda í meðfylgjandi skráningarbók.

Kistillinn var hannaður árið 2008 í smiðju Tækniminjasafns Austurlands í samstarfi við Skaftfell sem hafði umsjón með myndlistarhlutanum. Pétur Kristjánsson (safnstjóri Tækniminjasafnsins og myndlistarmaður), Helgi Örn Pétursson (myndlistarmaður og forvörður), Kristín Dýrfjörð (Reggio Emilia sérfræðingur), Hildigunnur Birgisdóttir (myndlistarkona), Bjarni Sigurbjörnsson (myndlistarmaður og smiður) og Pétur Magnússon (myndlistarmaður og smiður) komu öll að hönnun, þróun og smíði kistilins. V
eturinn 2008-2009 ferðaðist kistillinn á milli grunnskóla á Austurlandi og hlaut góðar undirtektir. Hann hefur síðan þá verið geymdur á Tækniminjasafni Austurlands en verður aftur virkjaður í samstarfi List fyrir alla og er ætlunin að sem flestir fái að njóta þessa skemmtilega verkefnis.

  • Kistillinn er ekki stærri en svo að hann rúmist í skotti venjulegs fólksbíls.
  • Kistillinn er ekki þyngri en svo að einn fullorðinn maður eða tvö hálfstálpuð börn geti borið hann.
  • Ekki er þörf á neinum aukahlutum til þess að vinna með kistilinn en gert er ráð fyrir að notendur hafi aðgang að 240 volta riðstraum.
  • Ætlast er til þess að myndmenntakennari, jafnvel í samstarfi við raungreinakennara, vinni verkefnin með börnunum.
  • Mælt er með því að hópurinn sé ekki fjölmennari en 10 nemendur

Upplýsingar
Hvað

Eðlisfræði, myndlist, sköpun

Hvenær

Skólaárið 2018-2019

Hvar

Austurland

Hverjir

Kistillinn
myndmennta- og raungreinakennari

Aldurshópur

Elsta stig

Aðstaða og tækni

Kennslustofa, borð undir kistilinn, 240 volta riðstraumur, sítrónur