Hávísindalegar og trylltar tilraunir Ritlist

Hávísindalegar og trylltar tilraunir

Linda elskar að teikna … stundum fram á nótt. Hún teiknar allt sem hún sér. Villi elskar að gera vísindatilraunir, helst alla daga. Að teikna og skrifa er líka tilraun. Alveg eins og vísindamenn hræra saman efnum til að sjá hvort eitthvað springi í loft upp hræra teiknarar og rithöfundar saman orðum, myndum og hugmyndum til að sjá hvort eitthvað lifni við eða springi kannski bara í loft upp á blaðsíðunni. Linda Ólafsdóttir og Vilhelm Anton Jónsson segja frá hvernig þau leika sér alla daga með texta, teikningar og vísindi. Svo gera þau líka stórmerkilega tilraun til að búa til vísindatrylli með aðstoð nemenda.

Linda Ólafsdóttir er teiknari og barnabókahöfundur og hefur myndskreytt fjölda bóka, m.a. Íslandsbók barnannaMóa hrekkjusvínDúkku og sitt eigin höfundaverk, LEIKA?. Fyrir verk sín hefur Linda hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna og má þar nefna tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunin og Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Fyrir Íslandsbók barnanna fékk Linda heiðurssæti á lista IBBY 2018.

Vilhelm Anton Jónsson er söngvari og tónlistarmaður, kvikmyndaleikari og þáttastjórnandi í útvarpi og sjónvarpi og þar að auki barnabókahöfundur. Árið 2013 sendi hann frá sér fyrstu Vísindabók Villa og nú sex árum síðar eru hinar vinsælu vísindabækur orðnar fimm talsins, þ.á m. Vísindabók Villa: truflaðar tilraunir og Vísindabók Villa: geimurinn og geimferðir sem hann skrifaði með Sævari Helga Bragasyni.

Verð
40.000 kr.

Tímalengd
Ein kennslustund/ 40 mínútur

Pantanir
Allar pantanir berist á tinna@rsi.is. Nánari upplýsingar eru veittar í síma 568 3190.

 

Skáld í skólum

Á hverju hausti býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrár undir nafninu Skáld í skólum þar sem höfundar heimsækja skólana til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. Dagskrárnar í Skáld í skólum eru metnaðarfullar og fræðandi, höfundar koma í heimsókn til að tala um bækur og lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra og síðast en ekki síst til að smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði.

Í ár fara 6 skáld frá Höfundamiðstöð RSÍ í ævintýraleiðangur með nemendum og kennurum um undraheima bókmennta, þau gera tilraunir til að búa til vísindatrylli, uppgötva leynistaði þar sem maður getur verið maður sjálfur og þefa uppi kynngimagnaðar bækur sem geta breytt heiminum til hins betra.

Skáld í skólum er á sínu 14. starfsári og hefur fyrir löngu sannað sig sem ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins, en hátt í 70 mismunandi dagskár hafa orðið til innan vébanda verkefnisins frá því það hóf fyrst göngu sína 2006.

Höfundamiðstöð og Skáld í skólum njóta stuðnings Menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar.

 

Upplýsingar
Hvað

Bókmenntadagskrá

Hvenær

16. október til 15. nóvember 2019

Hvar

Um land allt

Hverjir

Linda Ólafsdóttir og Vilhelm Anton Jónsson

Aldurshópur

1. - 4. bekkur

Aðstaða og tækni

Salur eða kennslustofa, hljóðkerfi með 2 hljóðnemum og tölva með skjávarpa sem skóli hefur til reiðu.