Hnýtum hugarflugur Myndlist

Hnýtum hugarflugur

Að segja sögu í orðum og myndum er leið til að breyta heiminum. Með einum blýanti er hægt að koma ótrúlegustu hugmyndum í átt að veruleika. En stundum getur líka verið gott að láta staðar numið og leyfa afrakstri hugmyndavinnu að njóta sín í skemmtilegri bók.

Rit- og myndhöfundarnir Linda Ólafsdóttir og Lóa Hjálmtýsdóttir segja frá því hvernig þær vinna við sköpun bóka í orðum og myndum. Nemendur fá að kynnast fjölbreyttum og skapandi aðferðum við að setja saman sögu og myndir. Farið verður í leiki með hugarflug sem á sér engin takmörk. Nemendur fá svo tækifæri til að búa til sína eigin myndasögubók.

Linda og Lóa leggja áherslu á leik og gleði og sýna með teikningum og hugmyndaleikjum hvernig maður nýtir hversdagslega atburði, alls konar minningar og umhverfi til að skapa sína eigin stórkostlegu sögu. Ólíkir menningarheimar og upplifanir geta verið uppspretta að sögum og ævintýrum og er það nemendanna að ákveða hvort sögur þeirra og myndir verði túlkaðar á raunsæjan eða ævintýralega átt. Spjallað verður um hvað við getum lært af sögum annarra, hvort sem þær eru sannar eða uppspunnar.

Linda Ólafsdóttir er teiknari og barnabókahöfundur, en hún hefur myndskreytt fjölda bóka og má þar nefna Íslandsbók barnanna, Móa hrekkjusvín, Dúkku og hennar eigin höfundaverk, PLAY? sem gefin er út í Bandaríkjunum 2017 en hefur síðar komið út á íslensku, frönsku og kínversku. Linda hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir verk sín, þar á meðal tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2016 fyrir Íslandbók barnanna, Fjöruverðlaunin 2017, tilnefningu til Astrid Lindgren Memorial Awards 2013 og í tvígang hlotið Barnabókaverðlaun skóla­ og frístundaráðs Reykjavíkur. Linda hefur kennt börnum myndlist bæði í grunnskóla og í Myndlistaskóla Reykjavíkur og tekið þátt í listasmiðjum fyrir börn á vegum Norræna hússins og Listasafns Íslands.

Lóa Hjálmtýsdóttir er teiknari og myndasöguhöfundur. Lóa lauk meistaraprófi í Ritlist við HÍ 2016. Allt frá árinu 2005 hefur hún myndskreytt á annan tug kennslu­ og barnabóka auk þess að hafa teiknað myndasögur fyrir blöð og bækur. Forlagið hefur gefið út fimm bækur eftir hana. Árið 2018 var frumsýnt leikverk eftir Lóu á Litla sviði Borgarleikhússins. Verk eftir hana hafa hlotið ýmis konar viðurkenningar, þar með talið Vorvinda IBBY fyrir barnabók, tilnefningu til Menningarverðlauna DV sem og Fjöruverðlaunanna, tilnefningar til Grímuverðlaunanna og tilnefningu til Barnabókaverðlaun skóla­ og frístundaráðs Reykjavíkur. Síðastliðin 9 ár hefur Lóa verið stundakennari í LHÍ og kennt þar myndasögu­ og bókagerð.

ANNAÐ:
Linda og Lóa hafa sl. þrjú ár kennt saman námskeið í myndskreytingum og myndasögugerð í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Þær hafa unnið saman að ýmsum sýningum og verkefnum sem tengjast teikningu og sagnagerð og heimsótt skóla með skapandi verkefni á vegum Skálda í skólum.

 

 

Upplýsingar
Hvað

Hugmynda- og sögusmiðja

Hvenær

14.-18. september 2020

Hvar

Blöndós, Húnavallaskóli, Hvammstangi, Skagaströnd

Hverjir

Linda Ólafsdóttir
Lóa Hjálmtýsdóttir

Aldurshópur

3.-7.bekkur

Aðstaða og tækni

Í stofu (minni hópur): Tússtafla - pappír og skriffæri (skjávarpi ef það er hægt). Á sal (stærri hópur): Skjávarpi - hljóð