Íslensk alþýðulist Myndlist

Íslensk alþýðulist

Er hægt að teikna með skærum? Byggja úr pappír? Geta tappar og dósalok breyst í blóm?

Er hægt að búa til skraut eða jafnvel húsgögn úr áldósum?  

Setjum okkur í spor alþýðulistamanna, hugmyndafluginu verður gefið laus taumur og efnið látið örva nemendur til persónulegrar sköpunar.

Listfræðsluverkefni Skaftfells veturinn 2019 mun hverfast um íslenska alþýðulist þar sem m.a. verður velt fyrir sér spurningum á borð við hvað er alþýðulist, hvaðan sprettur hún, hvaða gildi hefur hún fyrir listheiminn og samfélagið? Kynnt verður fyrir nemendum hugtakið alþýðulist með áherslu á tiltekna listamenn og verkefni unnið í kjölfarið út frá þeirra nálgunum og vinnuaðferðum. Lögð verður áhersla á endurunnið efni sem verður einmitt hluti af inntaki verkefnisins í tengslum við sjálfbærni sem er brýnt málefni líðandi stundar.  

Leiðbeinandinn, sem að þessu sinni er listakonan Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir, mun ferðast í alla skóla Austurlands og bjóða upp á innlögn um alþýðulist og í kjölfarið listsmiðju og verkefni. Öllum nemendum á miðstigi á Austurlandi er boðin þátttaka . Verkefnið verður kennt í september og er hluti af BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Markmiðið með fræðsluverkefnum Skaftfells er að búa til stuttar listsmiðjur á forsendum myndlistar og kynna fyrir nemendum með ólíkum hætti hina fjölmörgu snertifleti myndlistar.

Upplýsingar
Hvað

Íslenska alþýðulist

Hvenær

Haust 2019

Hvar

Austurland

Hverjir

Skaftfell - Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir

Aldurshópur

5. - 8. bekkur

Aðstaða og tækni

Skjávörpun - nettenging.