Listrænt ákall til náttúrunnar Listir

Listrænt ákall til náttúrunnar

Listrænt ákall til náttúrunnar (LÁN) er þverfaglegt þróunarverkefni á vegum Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Því er ætlað að skapa samtal á milli náttúrufræði og listgreina. Lögð er áhersla á að kynnast málefnum náttúrunnar á skapandi og nýstárlegan hátt með aðferðum list- og verkgreina.

Markmið LÁN samstarfsverkefnisins er að:

  • List- og verkgreinakennarar öðlist nýja sýn á málefni náttúrufræði á sama tíma og náttúrufræðikennarar (bekkjakennarar) kynnast vinnuaðferðum lista og hönnunar.
  • Kennarar byggi á fyrri reynslu og leiti leiða við að auka áhuga ungs fólks á náttúrufræðum og málefnum sjálfbærni.
  • Þróa verkefni sem styrkja sjálfsmynd nemenda, gagnrýna hugsun og trú þeirra á eigin getu.
  • Ýta undir nýsköpun í skólastarfi, þróun nýrra kennsluaðferða og þverfaglegs samstarfs.
  • Stuðla að starfsþróun kennara með áherslu á skapandi kennsluhætti.
  • Mæta kröfum menntastefnu Reykjavíkur um fjölbreytta kennsluhætti.
  • Stuðla að samtali milli kennara sem vilja innleiða málefni sjálfbærni og þverfaglegra kennsluhátta í sína starfskenningu með fjölbreyttum námskeiðum og stuðningi.
  • Auka tengslanet milli skóla í Reykjavík.

Til að bregðast við heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er nauðsynlegt að gera róttækar breytingar á nálgun skólasamfélagsins á málefninu. Það er öllum ljóst að allir þurfa að læra að lifa á sjálfbæran máta þar sem hlúð er að félagslegum, og vistfræðilegum þáttum á friðsælan máta. Margir fræðimenn hafa bent á að til að tileinka sér sjálfbæra lifnaðarhætti og gildismat skipta bæði smáar og stórar breytingar máli. Smáu breytingarnar geta haft mikil áhrif á félagslega þætti samfélagsins sérstaklega þegar lögð er áhersla á þverfaglegt samvinnunám.

Mannleg hegðun er að breyta loftslagi okkar hér á jörðinni. Þetta setur vaxandi toll á náttúrukerfin sem viðhalda okkur, heilsu okkar, vellíðan og velmegun. Loftslagsbreytingar eru kerfisbundin vandamál sem eiga rætur sínar í alþjóðlegum efnahags-, félags-, og menningarlegum kerfum sem felast í ósjálfbærri neyslu, ójöfnuði og tengslaleysi við náttúruna. Stefnumörkun, tækni og hagkvæmar fjárfestingar duga ekki til að takast á við vandann. Það þarf að ná bæði til hjartans og hugans til að þróa menningarlegt gildismat. Mörg vel lukkuð listaverk geta hreyft við fólki og fengið það til að spyrja sig áleitinna spurninga sem tengjast daglegu lífi. Skólastarf hefur möguleika á að skapa aðstæður fyrir nemendur til að brúa bilið milli þekkingar og þeirra gilda sem við viljum lifa eftir með skipulagningu listrænna viðburða.

 

Upplýsingar
Hvað

Listrænt ákall til náttúrunnar

Hvenær

Skólaárið 2021 - 2022

Hvar

Reykjavík

Hverjir

LÁN

Aldurshópur

Allur aldur

Aðstaða og tækni