OKið – upplifunarrými fyrir ungmenni Listir

OKið – upplifunarrými fyrir ungmenni

OKið er nýtt rými í Gerðubergi sem sérstaklega er hannað fyrir ungt fólk á aldrinum 11-16 ára. Þar er hægt að læra, skapa, fikta, eiga í samtali og einfaldlega hanga. OKið er þátttökuverkefni og hafa ungmenni úr Breiðholti tekið virkan þátt í þróun og framkvæmd verkefnisins.

Skólahópum býðst að bóka leiðsagnir í rýmið þar sem unnið er með meginþemu verkefnisins; norræna goðafræði og umhverfismál. Einnig geta kennarar og félagsmiðstöðvar bókað rýmið og nýtt í eigin verkefnum.

Rýmið er tileinkað ungu fólki um ókomna tíð og verður unnið með ýmis þemu í ár í senn. Árið 2020 er þemað byggt á Norður, stafrænni skáldsögu danska höfundarins Camillu Hübbe og myndlýsarans Rasmus Meisler. Í sögunni um stúlkuna Norður nýta höfundarnir sér sameiginlegan menningararf Norðurlandanna, norrænu goðafræðina. Þar er tekist á við stórar spurningar og alvarlegar áskoranir sem blasa við ungmennum í dag, s.s. hamfarahlýnun af mannavöldum og áhrif þeirra á lífríki jarðar og framtíð komandi kynslóða. Einnig tekst aðalpersónan á við sjálfa sig og gengur í gegnum krefjandi þroskaferli um leið og henni er ætlað að bjarga heiminum. Hægt er að nálgast söguna í opnum landsaðgangi hér:  https://borgarbokasafn.is/okid-upplifunarrymi-fyrir-ungmenni/nordur-stafraen-skaldsaga

OK er tilraunaverkefni Borgarbókasafnins og styrkt af Barnamenningarsjóði og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Allar frekari upplýsingar um bókanir í OKið má finna á www.borgarbokasafn.is/okid

Upplýsingar
Hvað

Listir

Hvenær

Haust 2020 og Vor 2021

Hvar

Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi

Hverjir

Borgarbókasafnið

Aldurshópur

6.-10.bekkur

Aðstaða og tækni

OKið