Á hverju ári býður Skaftfell Listamiðstöð upp á listatengt fræðsluverkefni fyrir nemendur á Austurlandi. Verkefnið er hluti af List fyrir alla og BRAS – menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi.
Listfræðsluverkefni Skaftfells árið 2023 verður unnið samhliða haustsýningu Skaftfells 2023 Laust mál. Sýningin mun innihalda verk eftir skáld og myndlistarmenn sem á róttækan og skapandi hátt brjótast út úr hefðbundnu formi bókbundins ljóðs.
Verkefnið býður nemendum á elsta stigi á Austurlandi að skoða sýninguna og leika sér með texta, ljóðagerð og prent á óhefðbundin og skemmtilegan hátt í tvem smiðjum:
Verkefnið fer fram 11.-21. september.
Karawane Killi Mara Kussu Mu er smiðja sem fagnar útþenslu tungumálsins með vitleysunni að vopni. Til að finna upp ný orð þarf að opna hugvitin og anda að sér fersku hráefni stafa. Merking og tákn orða og stafa eru skorin niður og sett saman á annan hátt til að þróa aðra og spennandi tengingu við tungumál meðal annars með hjálp vitleysuljóðlist (nonsense poetry). Þátttakendum gefst tækifæri til að ná að kafa dýpra í skrif og lestur í leik og tilraunum og hvött til að finna upp ný orð og blanda saman orðum á ýmsum tungumálum. Verkefnið er gert til að efla sköpun í tengslum við hljóð, stafi og lestur. Titill verkefnisins er fenginn frá Hugo Ball úr Dada stefnunni og kvæðum Sæunnar Jónsdóttur. Smiðjan er hönnuð af Listakonunni og skáldinu Ástu Fanney Sigurðardóttur og er kennd af listakonunni Önnu Margréti Ólafsdóttur.
Bráðnandi myndir notar naíva prenttækni til að gera abstract myndir. Vaxlitir verða bræddir á álplötur og síðan fluttir yfir á pappír. Með þessu gefum við eftir og bjóðum mistök og slys velkomin og íhugum samsetningu þrátt fyrir að líkurnar séu á móti okkur. Smiðjan er hönnuð og kennd af listamanninum Joe Keys.
Listamenn sem koma að verkefninu:
Ásta Fanney Sigurðardóttir (f. 1987) er listakona og skáld. Hún hefur verið kölluð spaðaásinn í geri íslenskra ljóðskálda og hefur flutt ljóð sín hérlendis og erlendis á viðburðum og hátíðum sem telja vel á tíunda tug. Ásta hefur gefið úr ljóðakverið Herra Hjúkket (Meðgönguljóð 2012) og bókverkið Kaos Lexicon (2017). Hennar fyrsta ljóðabók í fullri lengd Eilífðarnón kom út árið 2019. Ásta Fanney vinnur meðal annars með tóna, hljóð og orð í verkum sínum, ásamt gjörningum. Verk hennar hverfast oft um hið óvænta og fáránlega þar sem mörk ólíkra miðla mást út. Árið 2018 sýndi hún gjörningaverkið Lunar-10.13 & Gáta Nórensu á Listahátíð í Reykjavík, þar sem ljóð, tónlist, innsetningar og gjörningar runnu saman í eitt. Meðal verka hennar er þorskaópera, raulkórverk, hljóðaljóðakórverk og sérhljóðatónverk. Nýjasta bók hennar nefnist Gluggi – draumskrá sem er skrásetning á draumum. Ásta hefur flutt tónverk sín, ljóð og gjörninga á ýmsum hátíðum og sýningum bæði hérlendis og erlendis. Hún var handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör árið 2017 og var tilnefnd til Bernard Heidsieck-verðlaunanna í Pompidou árið 2021.
Joe Keys útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2021. Hann er fæddur í Newcastle í Bretlandi og hefur búið á Íslandi síðan 2018. Hann vinnur aðallega með fundið efni í gegnum skúlptúra og prentsmíði. Verkin sem hann gerir endurspegla skipulagskerfi í daglegu lífi, með þurrum húmor og tillitssemi við hluti sem eru vanmetnir og gleymast. Í seinni tíð hefur hann einbeitt sér að ljóðrænum textaverkum, teikningum og klippimyndum. Hann starfar nú sem leiðbeinandi á prentsmiðju Listaháskóla Íslands. Auk þessa rekur hann vinnustofu/sýningarrými, Associate Gallery með Ástríði Jónsdóttur og Hildi Elísu Jónsdóttur.
Anna Margrét (f. 1992) lauk bakkalárgráðu frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2019 og meistaragráðu frá Sviðslistadeild LHÍ haustið 2022. Anna Margrét stundaði starfsnám í Helsinki hjá finnsku listakonunni Pilvi Takala og vann að undirbúningi fyrir verk hennar á Feneyjartværingnum 2022. Eftir að hafa stundað nám við LungA Skólann haustið 2014 flutti Anna Margrét aftur á Seyðisfjörð í einn vetur þar sem hún vann með börnum og lagði stund á eigin listsköpun. Nú býr hún í Reykjavík og stundar nám við Listkennsludeild Listaháskóla Íslands.
Listasmiðja
11.-21. september 2023
Austurland og Norðausturland
Skaftfell Listamiðstöð
8. - 10. bekkur