Stúlkan í turninum Tónlistarsaga

Stúlkan í turninum

Tónverkið Stúlkan í turninum var samið af Snorra Sigfúsi Birgissyni fyrir Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Það var flutt í grunnskólum um Norðurland haustið 2005.
Verkið hentar einstaklega vel til kynningar í skólum og er sígílt og teljum við ástæðu til þess að flytja verkið reglulega.
13 hljóðfæraleikarar taka þátt í verkinu og sína þverskurð hljóðfæraskipunar í klassískri sinfóníuhljómsveit. Þarna gefst tækifæri til þess að kynna börnum þennan hljóðheim og verður kynning á lifandi hátt og gjarnan með fulltingi barnanna sem fá að prófa hljóðfæri eða jafnvel troða upp sem hljómsveitarstjórar.

Verkið byggir á sögu Jónasar Hallgrímssonar um Stúlkuna í turninum og er stefnt að því að vinna skólakynningar í samvinnu við íslenskukennara þannig að börnin þekki til sögunnar fyrirfram og hafi unnið verkefni henni tengd. Einnig má sjá fyrir sér meiri samvinnu eins og t.d. við listgreinakennara, myndlist, textíl, leiklist og dans.
Sagan fjallar um baráttu góðs og ills. Boðskapurinn er sígildur og skýr, hið góða mun sigra að lokum ef við sýnum nægilega trú og tryggð. Tónlistin túlkar söguna samhliða því sem hún er sögð.
Upptaka á tónverkinu var gerð í tónlistarhúsinu Laugarborg í janúar árið 2006. Útgáfan er mjög vönduð og í bæklingi er ævintýri Jónasar prentað í heild sinni með myndskreytingum. Það er listakonan Veronica Nahmias sem bjó til myndir við söguna.

 

 

Upplýsingar
Hvað

Tónlistarævintýri

Hvenær

18. - 20. janúar 2021

Hvar

Norðurland - Menningarhúsið Hof

Hverjir

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands

Aldurshópur

4.-6.bekkur

Aðstaða og tækni

Menningarhúsið Hof