Barnabókaflóðið Ritlist

Barnabókaflóðið

Barnabókaflóðið er ævintýraleg gagnvirk sýning fyrir börn á grunnskólaaldri sem býður upp á ferðalag um furðuheim barnabókmenntanna.
Heimur barnabóka hefur margt spennandi fram að færa. Yndislestur getur m.a. flutt lesendur á nýjar slóðir, virkjað ímyndunaraflið, bætt orðaforða og stuðlað að aukinni víðsýni og samkennd.
Lestur er lykillinn að lærdómi en það getur verið árangursríkt að ýta undir lestraráhuga barna í gegnum leik og sköpunargleði.

Sýningin opnar í Norræna húsinu í lok september 2018 og stendur út mars 2019.

Eftirtaldar dagsetningar í boði fyrir heimsóknir skólahópa:
16., 24., 25., 30. og 31. október, 5., 6., 7., 13., 22. og 27. nóvember 2018 frá 9.00-11.00 eða 10.00-12.00.
Heimsókn á sýninguna er ókeypis fyrir skólahópa
Skráning: info@nordichouse.is og er opnað fyrir skráningu 30. ágúst.

Barnabækur byggja brýr

Sýningin Barnabókaflóðið byggist á virkri þátttöku gesta. Sjálfur Miðgarðsormurinn leiðir börn í skapandi ferðalag úr einu rými í annað. Barnabækur byggja brýr og ferðalangar búa sér til vegabréf sem þeir stimpla í á hverjum viðkomustað. Börnin fá að taka þátt í að skapa stórborgarpúsl, raða landanöfnum á heimskortið, skoða kort af raunverulegum og ímynduðum stöðum úr barnabókum og hnoðast á risahnetti.

Hetjur eru allskonar

Í listasmiðjunni „Hetjur eru allskonar“ er persónusköpun barnabóka í forgrunni. Þar skapa börn sínar eigin sögupersónur og geta mátað sig í mismunandi hlutverkum með grímugerð. Ævintýraþyrstir bókaormar geta síðan skriðið inn í bókafjall. Í fjallinu leynist skáldamjöðurinn og þar fá börn að leika sér með orð og semja eigin ljóð. Þar er líka spennandi bókakrókur til yndislesturs.

Ævintýrasigling á barnabókaflóðinu

Gestir sýningarinnar sigla á vit ævintýra í víkingaskipi og geta jafnvel hlustað á upplestur. Fjársjóður er falinn á eyðieyju og börn fá að skrifa flöskuskeyti. Í sögugerðarsmiðju fá börn tækifæri til að skrifa og teikna eigin sögur og svara nokkrum spurningum í bráðskemmtilegum barnabókaspurningaleik. Dregið verður úr lukkupottinum við sýningarlok í mars 2019. Vinningshafar fá auðvitað bókagjöf.

Við erum öll geimverur

Inn af sögugerðarsmiðjunni er myrkvaður hellir fyrir hugaða ferðalanga. Í myrkrinu leynist ýmislegt. Geimurinn fer með ímyndunaraflið á flug og í lok könnunarleiðangurs um barnabókaflóðið er hægt er að leggjast niður og láta sig dreyma innan um stjörnuþokur og svarthol.

Þátttaka barna felst m.a. í:
Búningaleik
Vegabréfagerð
Stórborgarpúsli
Sögupersónugerð
Ljóðagerð
Upplestri
Flöskuskeyti
Sögugerð
Spurningakeppni
Slökun
Leik, sköpun, fróðleik og upplifun

Listrænn stjórnandi sýningarinnar er Kristín Ragna Gunnarsdóttir rithöfundur og teiknari.

Sýningin og viðburðadagskrá tengd henni er framleidd af Norræna húsinu í tilefni af 50 ára afmæli hússins.

Upplýsingar
Hvað

Ævintýralegt ferðalag um heim barnabókmenntanna, lestur, teikning, ljóðagerð, upplestur, sögugerð, fræðsla.

Hvenær

16. 24. 25. 30. 31. október. 5. 6. 7. 13. 22. 27. nóvember 2018

Hvar

Norræna hússins - neðri hæð

Hverjir

Norræna húsið og Kristín Ragna Gunnarsdóttir

Aldurshópur

4. bekkur

Aðstaða og tækni

Norræna húsið