Jazz hrekkur Tónlist

Jazz hrekkur

Elsku krakkar á Austurlandi,

Nú erum við, Ingibjörg, Sunna og Leifur að koma í heimsókn til ykkar í október/nóvember og við hlökkum ofboðslega mikið til! Við ætlum að spila fyrir ykkur spriklandi nýja jazztónlist undir yfirskriftinni Jazzhrekkur en lögin fjalla um fyrirbæri tengd hrekkjavöku; drauga, nornir, afturgöngur og kóngulær. Þetta er einstaklega viðeigandi á hátíð myrkursins.

Það eru nokkrir hlutir sem okkur langar að segja ykkur frá svo þið getið undirbúið ykkur og hjálpað okkur að búa til svakalega hrekkjavökustemningu!

  • Það mega allir koma í hrekkjavökubúningum sem það vilja og ef kennarinn ykkar leyfir! Búningur þarf ekki að vera flókinn, t.d. er hægt að mála könguló á kinnina, taka með sér nornahatt. Sverð og vopn viljum við helst ekki fá.
  • Okkur langar að senda ykkur texta af einu lagi sem verður síðasta lagið á tónleikunum og heitir Dans köngulónna. Það væri gaman ef þið gætuð reynt að læra textann, í heild eða bara hluta og syngja með svo við getum hrist verulega upp í öllum köngulónum sem gætu verið að hlusta í einhverju skúmaskoti skólans! Lagið kemur fljótlega út á spotify og þá getum við sett hlekkinn hér inn. En fyrst má kannski bara aðeins skoða textann.

Mig langar til að kítla þig í tærnar.
Mig langar til að kítla þig í tærnar.

Ég er öggu poggu lítil könguló
og verð að ná þér

Ekki hlaupa’ í burtu, hvað er þig að hrjá? Ég kem ekki með í sturtu, það er mikil vá,

Ég er öggu poggu lítil könguló
og ætla’ að ná þér

Hér er Dans Kónulóanna til að hlusta og syngja með.

  • Okkur finnst rosalega gaman að heyra frá ykkur eftir tónleikana, hvort ykkur hafi fundist eitthvað sérlega áhugavert, skemmtilegt eða jafnvel stórfurðulegt! Sumir hafa teiknað mynd af einhverju sem kom fyrir á tónleikunum, t.d. hljóðfæraleikurunum eða einhverju sem kom fyrir í söngtexta. Ef ykkur langar til þá má senda svona myndir til okkar á netfangið jazzhrekkur@lgtonar.com. Við ætlum að safna þessum myndum saman og kannski búa til risastóra myndasýningu ef vel gengur að safna myndum. Ekki gleyma að merkja myndina. (það má líka skrifa skilaboð til okkur undir myndina eða útskýringar).

P.s það er líka gott að æfa nornahláturinn fyrir tónleikana.

Kv, Leifur, Ingibjörg og Sunna

 

JAZZ HREKKUR er tónleikadagskrá fyrir alla fjölskylduna þar sem reiddir verða fram jazztónar byggðir á þjóðtrú um að á tímamótum verði skilin milli mannheims og heims hins yfirnáttúrulega óljós, álfar, huldufók og uppvakningar birtast. Það er söngkonan Ingibjörg Fríða Helgadóttir, píanóleikarinn Sunna Gunnlaugsdóttir og kontrabassaleikarinn Leifur Gunnarsson sem fræða börnin um jazztónlist en gæta þess þó að hræða þau ekki of mikið.
Tónlistin er samin af Leifi Gunnarssyni og mega tónleikagestir búast við fjörugum og fræðandi tónleikum þar sem boðið verður upp á virka þátttöku í gegnum söng, klapp og dans.

Jazz Hrekkur

Upplýsingar
Hvað

Tónleikar

Hvenær

30. október - 2. nóvember 2023

Hvar

Austurland

Hverjir

Ingibjörg Fríða Helgadóttir söngkona
Sunna Gunnlaugsdóttir píanóleikari
Leifur Gunnarsson kontrabassaleikari

Aldurshópur

1.-4.bekkur

Aðstaða og tækni

Skjávarpi