Útgangspunktur verkefnisins er sýning í Skaftfelli á verkum Nínu Tryggvadóttur (1913-1968) og Gunnlaugs Schevings (1904-1972). Nemendum verður boðið í leiðsögn um sýningu Skaftfells og listasmiðju sem er hugsuð sem kveikja að stærra verkefni sem nemendur munu vinna í kjölfarið t.d. í myndmenntatímum.
Verkefnið er hluti af Bras – Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi.
Nánari lýsing á verkefninu sem skiptist í 3 hluta:
I. hluti: Leiðsögn og listsmiðja í Skaftfelli.
Nemendur munu kynnast verkum Nínu og Gunnlaugs, skoða þau í samhengi við listasöguna og jafnframt kryfja innihald, tjáningarform og listræna þróun þessara tveggja listamanna. Nína og Gunnlaugur voru samtímamenn en þróuðust í ólíkar áttir í list sinni; verk Gunnlaugs voru alla tíð hlutbundin og viðfangsefni hans var landslag og íslensk alþýða. Þróunin í verkum Nínu var hins vegar sú að þau urðu sífellt óhlutbundnari og ljóðrænni með tímanum.
Þessar andstæður verða sérstaklega skoðaðar auk þess sem fjallað verður um hugtök sem tengjast málverkinu eins og t.d. myndflötur, myndbygging, litasamsetning, hlutbundið, óhlutbundið o.s.frv.
Í listsmiðjunni verða gerðar léttar æfingar sem er hugsaðar sem kveikjur að stærra verkefni sem nemendum er boðið að taka með sér og vinna áfram í myndmenntatímum í sínum skóla.
II. hluti: Heimaverkefni í myndmenntatímum.
Verkefnið er í senn einstaklings- og hópaverkefni. Eftir að hafa kynnst verkum Nínu og Gunnlaugs fær hver nemandi fyrir sig eftirprentun af einu verki frá hvorum listamanni til að vinna með. Myndinni er skipt upp í búta og mun hver og einn nemandi fá úthlutaðan einn bút úr myndinni til að stækka upp. Í lokin eru allir bútarnir festir saman þ.a. útkoman verður stór eftirmynd af frummyndin sem unnið var með.
Ath. að hver skóli fær afhentar myndir í stafrænu formi sem búið er að búta niður eftir því sem hentar hverjum hópi fyrir sig. Það eina sem kennarinn þarf að gera er að prenta bútana út á A4. Nemendur þurfa svo að yfirfæra sinn bút á A3 eða A2.
III. hluti: Sameiginleg lokasýning:
Fræðsluverkefnið er að þessu sinni hluti af Bras – Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Undirtitill hátíðarinnar er Þora – Vera – Gera. Skaftfell leggur til fræðsluverkefnið og býður nemendum og kennurum um leið að taka það lengra. Okkar hugmynd er sú að nemendurnir finni sjálfir út úr því hvernig hægt er að gera útkomuna sýnilega og biðjum þau, undir handleiðslu umsjónar- eða myndmenntakennara, um að koma með tillögur að opinberu rými í sínum bæ þar sem hægt verði að hengja upp samsettu myndina og hafa hana til sýnis á meðan á hátíðinni stendur.
Mikilvægt er að nemendur ræði ásamt kennara hvað sé opinbert rými, setji fram nokkrar raunhæfar tillögur og kjósi í lokin um það rými sem þeim hugnast. Því næst þarf að hafa samband við þann sem ræður yfir rýminu og fá leyfi til að hengja það upp. Jafnvel þarf að leita úrlausna um það hvernig á að koma verkinu upp (nota stiga, körfubíl?), hvar geta þau fengið aðstoð og hvernig á að hengja það upp. Með þessu viljum við virkja nemendur til að taka ábyrgð á að gera eigin útkomu sýnilega, gera því hátt undir höfði og kynnast ferlinu að hengja upp verk. Að lokum taka nemendur/kennari myndir af upphengdu verki og senda til Skaftfells sem mun safna saman niðurstöðum frá öllum skólum á heimasíðu og facebook síðu Skaftfells.
Samantekt á markmiðum:
Nína og Gunnlaugur - Alls konar landslag
10.-26. september 2018
Austurland
Skaftfell
Oddný Björk Daníelsdóttir
5.-7. bekkur
Myndmenntastofa - Vatnslitir eða akrýlmálning, pappír; stærð A3 sem þolir vatnsliti eða akrýlmálningu.