FUBAR Dans

FUBAR

FUBAR er dansleikhúsverk unnið út frá tíma. Hvernig klukkutími getur liðið eins og mínúta þegar þú upplifir eitthvað frábært og hvernig tíminn virðist stoppa þegar upplifunin er hræðileg. Dansarinn líkamnar huglæga upplifun.

Jónas Sen tónskáld frumsemur tónlistina við verkið en tónlist og dans hafa fæðst saman í spunum á vinnuferlinu þar sem listamennirnir vinna báðir útfrá sama efninu og þannig myndast djúp tenging tónlistar og hreyfinga.

Verkið er dansleikhúsverk þar sem ekki einungis er dansað heldur er texti, söngur, vélmennadans, lifandi hljóðfæraleikur og búningar úr smiðju tískuhönnuðarins Hildi Yeoman áberandi.
Nánar upplýsingar má finna
http://www.facebook.com/nielsdaetur/
instagram: siggasoffiainc
Um listamennina:
Sigga Soffía útskrifaðist af samtímadansbraut frá Listaháskóla Íslands árið 2009 en á lokaári sínu var hún í skiptinámi við sirkusskólann Ecole Superior des Arts de Cirque í Brussel. Sigga Soffía hefur unnið bæði sem dansari og danshöfundur í fjölmörgum uppfærslum, bæði hérlendis sem erlendis, og dansaði m.a. í 5 verkum Shalala, dansflokki Ernu Ómarsdóttur.
Hún hefur vakið mikla athygli sem danshöfundur en verk hennar Svartar fjaðrir opnaði 29. Listahátíð í Reykjavík á Stóra sviði Þjóðleikhússins í maí 2015. Svartar fjaðrir hlaut þrjár tilnefningar til Grímunnar.
Sigga Soffía var einnig tilnefnd til Grímunnar sem Danshöfundur ársins fyrir verkið White for Decay sem hún samdi fyrir Íslenska dansflokkinn árið 2011 en sama ár söng hún einnig eitt aðalhlutverka óperunnar Red Waters eftir Lady & Bird í Frakkland.
Sigga Soffía er einna þekktust fyrir flugeldasýningar sínar á menningarnóttum Reykjavíkur en árið 2013 hlaut hún Menningarverðlaun DV fyrir Eldar sem var fyrsta flugeldaverkið hennar. Síðasta verk Siggu Soffíu var verkið “Stjörnubrim og himinninn kristallast” fyrri hluti þess var flugeldasýning menningarnætur 2015 en seinnhlutinn var sviðsetning fyrir íslenska dansflokkinn á stóra sviði Borgarleikhússins. Sólóverkið FUBAR er henni afar kært en verkið er abstrakt nálgun af persónulegri upplifun höfundar af hryðjuverkaógn í Evrópu.

Jónas Sen er með meistaragráðu í tónlistarfræðum (Performance Studies) frá tónlistardeild City University í London. Hann er einnig með meistaragráðu í mennta- og menningarstjórnun frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Hann er auk þess með einleikarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og nam líka píanóleik hjá Monique Deschaussées í París.
Jónas hefur verið tónlistargagnrýnandi við Fréttablaðið síðan árið 2010. Hann hefur skrifað fjölda greina um tónlist fyrir ýmis önnur dagblöð og tímarit – Pressuna, Eintak, Morgunpóstinn, Alþýðublaðið, DV, Morgunblaðið, Mannlíf og Tímarit Máls og menningar.
Jónas hefur starfað mikið með Björk Guðmundsdóttur. Hann var hljómborðsleikarinn á tónleikaferðalagi Bjarkar um heiminn á árunum 2007 og 2008. Hann var einnig hljóðfæraleikari á hluta af tónleikaferðalagi Bjarkar sem hún efndi til í kjölfar plötu sinnar Biophiliu.
Jónas hefur, í samstarfi við Björk, útsett og umritað fjölda laga hennar fyrir hljómborðshljóðfæri. Þar á meðal eru útsetningar hans og Bjarkar á lögunum á Biophiliu sem er að finna á iPad og iPhone útgáfu plötunnar. Nýrri útsetningar munu koma út snemma á næsta ári.
Jónas hefur samið tónlist fyrir leikhús. Hann samdi tónlist við leikverk Gabrielu Friðriksdóttur, The Black Spider, sem sýnt var í Zurich 2008. Ennfremur samdi hann tónlist ásamt Valdimar Jóhannssyni fyrir H, an Incident, sem var frumsýnt í Brussel 2013 og ferðaðist víða um Evrópu í kjölfarið. Jónas og Valdimar sömdu tónlist fyrir sýningu Sigríðar Soffíu Níelsdóttur, Svartar fjaðrir, sem var opnunarsviðsverk Listahátíðar í Þjóðleikhúsinu í maí 2015. Þeir voru tilnefndir til Grímuverðlaunanna fyrir tónlistina.
Þrjár sjónvarpsþáttaraðir sem Jónas hefur stjórnað fyrir RÚV hafa allar hlotið tilnefningu til Edduverðlaunanna. Þetta eru Tíu fingur, Átta raddir og Tónspor. Fjórða þáttaröð hans fyrir RÚV, Tónahlaup, var sýnd í sjónvarpinu s.l. haust.
Jónas semur raftónlist og hefur áður leikið hana á Extreme Chill hátíðinni og á Icelandic Airwaves.
Jónas vinnur nú að fyrstu bók sinni, sem fjallar um Halldór Haraldsson píanóleikara. Hann er einnig að vinna að sólóverki með Sigríði Soffíu. Það verður frumsýnt í Gamla bíói 26. október. Þau Sigríður Soffía munu líka koma fram á Airwaves hátíðinni í nóvember.
Auk annarra starfa er Jónas kennari í píanóleik við Tónmenntaskóla Reykjavíkur. Hann er listmálari í frístundum sínum

Hér mér sjá myndbrot frá æfingu

 

 

 

Upplýsingar
Hvað

Dansverkið FUBAR er eftir Siggu Soffíu við frumsamda tónlist Jónasar Sen. Framleiðsla: Níelsdætur

Hvenær

Nóvember 2016 og apríl 2017

Hvar

Austurland og Vesturland

Hverjir

Sigríður Soffía Níelsdóttir danshöfundur & dansari
Jónas Sen Tónskáld
Búningar: Hildur Yeoman
Leikmynd Helgi Már Kristinnson

Aldurshópur

8.-10.bekkur

Aðstaða og tækni