Í listkennsludeild Listaháskóla Íslands er saman kominn hópur fólks úr öllum listgreinum sem hefur það að takmarki að fræðast um og tileinka sér nýjar aðferðir við listkennslu með sem víðtækustum samfélagslegum og hugmyndafræðilegum skírskotunum.
Hér má sjá umfjöllun um Listalestin frá því hún var á Egilsstöðum haustið 2018:
Listalest LHÍ mun verða á Akranesi dagana 7. og 8. maí 2019 til að halda sjö þverfaglegar vinnusmiðjur fyrir unglinga í 8. og 9. bekk í Grundaskóla og Brekkubæjarskóla, þar sem áhersla verður lögð á samruna listgreina.
Verkefnið kemur til með að mótast og þróast í samstarfi við listgreinakennara sem og aðra kennara í viðkomandi skólum og munu nemendur listkennsludeildar vinna í samstarfi við þá.
Afurðir vinnusmiðjanna verða svo verða settar upp sem listasýning Byggðasafninu í Görðum á Akranesi í lokin með sýningarstjóra. Opnun verður kl.17 þann 8.maí. Allir eru hjartanlega velkomnir!
Að leggja línurnar
Í smiðjunni skoðum við hvernig hægt er að nota mjög einfaldan efnivið (garn/bönd/snæri) til þess að búa til fjölbreytta skúlptúra og innsetningar.
Við veltum upp spurningum eins og: Hvernig upplifum við rými? Hvað stýrir því hvernig við hreyfum okkur um rými?
Við kynnumst listamönnum sem hafa unnið með línur og bönd, merkingu efniviðsins fyrir þeim og mögulega þýðingu fyrir okkur sjálf. Hver fer sína leið, býr til hnúta, flækjur, beinar línur eða vef. Saman myndum við eina heild: tilfinningabönd – söguþræði – hjartastrengi – tengingar okkar á milli og við
Leiðbeinendur frá Listkennsludeild LHÍ:
Gunnhildur (myndlist) og Jóhanna (myndlist)
Engu hent – Öðrum kennt – Að rusla sig upp
Unnið er með gömul / tjöld – tjalddýnur, segl, net, reipi, brúsar- frá Sorpu, fjörunni og mögulega frá fyrirtækjum eða einkaaðilum á svæðinu.
Unnið verður með efnið þannig að það þekkist ekki endilega hvaðan það kemur.
Nemendur vinna með efnið á mismunandi hátt. Tæta það niður – rúlla því upp o.s.frv.
Lokaniðurstaða verður í formi ljósmynda af verkum nemenda sem unnin verða utan á líkama þeirra og / eða utan um tein sem steyptur er ofan í fötu.
Hugtök: Passion for “Trashion og Environmental Activist
Nemendur eru hvattir til að mæta í fötum sem þau finna í ruslinu – eða fötum sem má gera ráð fyrir að fari í eitthvað efni sem næst ekki úr þeim.
Leiðbeinendur frá Listkennsludeild LHÍ:
Hanna (hönnun) og Hrönn (leirlist)
Kraftur hafsins
Í þessari smiðju ætlum við að skoða umhverfið/náttúruna með öll skynfæri opin.
Við skoðum fjöruna og hafið með augum listamannsins og vísindamannsins.
Hvaða áhrif hefur hafið á okkur?
Söfnum efnivið og hugmyndum sem verða að innsetningu á Byggðasafninu. Innsetningin er tilraun til að færa upplifun okkar og skynjun af hafinu og fjörunni inn á safnið með fjölbreyttum leiðum; t.d. myndverk, hljóð, myndband, ljósmyndir og/eða rannsóknarstofa.
Smiðjan er hugsuð sem leikur og rannsókn þar sem nemendur fá tækifæri til að nálgast umhverfið sitt og efnivið á nýjan hátt og setja í annað samhengi.
Leiðbeinendur frá Listkennsludeild LHÍ: Ásta (textíll) og Sif (myndlist)
Kynjaskepnur koma til lífs
Íslenskur þjóðsagnaarfur geymir frásagnir af allskyns kynjaverum, furðuverum, vættum og ófreskjum og svo lengi mætti telja. Þessar frásagnir hafa farið manna á milli í aldaraðir en lítið hefur farið fyrir þessum kynjaskepnum upp á síðkastið. Á Akranesi ætla nýjar kynjaskepnur að vakna til lífs þar sem nemendur fá tækifæri til að skapa og búa til sínar eigin kynjaskepnur út frá staðhættum kaupstaðarins, ásamt því að skrifa stutta þjóðsögu um veruna, útlit hennar, atferli, heimkynni, fæðu.
Nemendur fá einnig að útfæra kynjaskepnuna á afar skapandi og frjálsan hátt sem síðan verður sýnd í Byggðarsafninu þann 8.maí.
Endilega mæta í þægilegum fatnaði sem hægt er að vinna í (unnið verður jafnvel með málingu og fleiri efni).
Leiðbeinendur frá Listkennsludeild LHÍ:
Ingunn Elísabet (danslist) og Gísli (vöruhönnun)
Leiksköpun – Leiklist og skapandi skrif
Leynist í þér rithöfundur? Eða kannski leikari? Jafnvel bæði?
Í þessari smiðju læra nemendur einfalda leið til þess að skrifa leikrit. Nokkur leikrit eru svo valin til þess að æfa og sýning verður undirbúin. Þau verk verða tekin upp á video en einnig fá nemendur að sýna á opnuninni ef þeir vilja.
Leiðbeinendur frá Listkennsludeild LHÍ: Anna Íris (leiklist)
Mátturinn í margbreytileikanum
Við erum ekki bara eitthvað eitt. Mannfólk er sett saman úr mörgum einingum.
Á námskeiðinu skapa nemendur sjálfsmynd sína sem hús í þvívíðu formi úr allskonar efnivið. Unnið verður með tengsl við sjálfan sig og samfélagið. Gerðar verða tilraunir með ýmis efni þar sem áhersla verður á leikgleði, lausnamiðaða nálgun og gagnrýna hugsun.
Nemendur eru beðnir um að vera í fötum sem má sullast á
Leiðbeinendur frá Listkennsludeild LHÍ: Harpa (vöruhönnun) og Halla (myndlist)
Sagan í eldinum- ljóðið í sjónum
varðeldur – blindandi gönguferð – náttúran – þögnin – innsæið – ritúal – sögur – minningar – draumar
Hljómsveitin Eva leiðir hér námskeið sem mun hverfast í kringum blindandi óvissugönguferð í þögn sem verður að kveikju að sögu. Við ætlum að leita að sögunum í kringum Stúkuhúsið, í eldinum og í myrkrinu. Sögur í óvissunni, sögur sem við eigum kannski innra með okkur en hafa ekki ennþá orðið til. Nemendur munu vinna sjálfstætt og búa til sögu eftir þetta skapandi ferðalag. Lag, ljóð, saga, skúlptúr, lagatexti, listi eða hvað það nú er sem kemur til þeirra í gegnum þetta ferðalag.
Koma með: viðeigandi föt fyrir útiveru, trefil eða band til að binda fyrir augun, skriffblokk eða bók og skriffæri.
Leiðbeinendur frá Listkennsludeild LHÍ: Sigríður Eir og Vala, tónlistarkonur í hljómsveitinni Evu og sviðshöfundar
Listalest LHÍ
7. og 8. maí 2019
Akranes
Listkennsludeild LHÍ
Listgreinakennarar
8. og 9.bekkur
Vinnustofur