Stafrænar styttur Myndlist/sjónlistir

Stafrænar styttur

Listasafn Einars Jónssonar og verkfræðistofan EFLA bjóða upp á stafrænt aðgengi að völdum styttum Einars Jónssonar (1874-1954), fyrsta myndhöggvara Íslands. Verkefnið sameinar spennandi tækni í myndmælingu (photogrammetry) og hina aldagömlu höggmyndalist sem gerir nemendum á grunnskólaaldri og kennurum þeirra kleift að nýta sér nýjustu tækni til að rýna í listaverkin óháð búsetu.

Verkefnið er í formi stafrænna tvíbura af raunverulegum listaverkum. Tæknin gefur nemendum tækifæri til að skoða listaverk Einars frá breytilegum sjónarhornum sem annars eru hulin því mörg listaverkanna eru gríðarstór og umfangsmikil.

Með því að nota nýlega snjalltæki er líka hægt að staðsetja stafrænu tvíburana inn í hvaða rými sem er með gagnauknum veruleika (augmented reality) og smáforritinu Sketchfab. Verkefnið er veflægt á heimasíðu safnsins og aðgengilegt fyrir alla. Kennarar geta byrjað á því að skoða kynningarmyndbandið hér fyrir neðan. Á heimasíðu Listasafns Einars Jónssonar er annars vegar hægt að sækja fræðslupakka um 10 styttur ætlaðan nemendum á aldrinum 8-14 ára. Hins vegar er hægt að skoða stafræna tvíbura og hlusta á frásagnir um þá án þess að nálgast smáforritið. Slóðin er hér: http://www.lej.is/stafraenar-styttur/

Það er í höndum kennara hvernig verkefnin eru nýtt. Fræðslupakki verkefnisins útlistar forsendur verkefna fyrir nemendur og þar er mælt með ákveðnum verkum fyrir ákveðinn aldur auk þess sem boðið er upp á ítarefni fyrir kennara. Kennsluaðferðir eru einnig reifaðar í fræðslupakka verkefnisins en þær eru stýrðar samræður og sjónræn hugsun (visible thinking) sem tengist fjölgreindarkenningu Gardners.

Appið heitir Sketchfab og hér er hægt að nálgast stafrænu tvíburana án smáforritsins hér:

http://brokkoli.is/stafraenar-styttur/

Fræðslupakkann má finna hér:

http://www.lej.is/stafraenar-styttur/

Hér má finna stuttkynningamyndband um Stafrænar styttur:

 

Upplýsingar
Hvað

Myndlist/sjónlistir - hönnun/arkitektúr

Hvenær

Alltaf

Hvar

Á Listveitu List fyrir alla og heimasíðu Listasafn Einars Jónssonar

Hverjir

Listasafn Einars Jónssonar

Aldurshópur

Allur aldur

Aðstaða og tækni

Skjávörpun, nettenging, spjaldtölvur og/eða aðgengi að tölvum.