Listrænt ákall til jökla Hönnun

Listrænt ákall til jökla

Öll börn Grunnskóla Hornafjarðar taka þátt í skapandi listasmiðju undir leiðsögn Hönnu Dísar Whitehead. Unnið verður með væntumþykju og persónuleg tengsl við Vatnajökul þar sem áhersla verður lögð á gildi fegurðar jökulsins bæði í nálægð og fjarlægð.  Í smiðjunni rannsaka börnin eigin minningar, upplifanir og þekkingu á jöklinum, hvort sem þær spretta úr daglegu umhverfi þeirra, sögum, ferðum eða sjónrænum áhrifum landslagsins.

Börnin kynnast jafnframt rannsóknum Þorvarðar Árnasonar sem starfar við rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn. Hann hefur í tvo áratugi rannsakað Vatnajökul með listrænum aðferðum. Þorvarður nýtir kvikmyndir, ljósmyndir og aðra sjónræna miðla til að fanga tíma, breytingar og nærveru jökulsins. Í smiðjunni fá nemendur innsýn í þessi verkefni og læra um þær miklu breytingar sem Vatnajökull hefur gengið í gegnum á undanförnum árum.

Með fjölbreyttum sköpunaraðferðum fá börnin tækifæri til að vinna úr bæði tilfinningum og þekkingu á jöklinum. Þau skoða hvernig list getur vakið spurningar, eflt áhuga og hjálpað okkur að sjá náttúruna á nýjan hátt.

Markmið smiðjunnar

  • Að efla áhuga barna á jöklum og náttúrufari svæðisins
  • Að styrkja tengsl þeirra við eigin nánasta umhverfi
  • Að rækta undrun, virðingu og væntumþykju gagnvart náttúrunni
  • Að nýta skapandi aðferðir til að dýpka skilning á breytingum í náttúrunni
  • Að kynna sjónræna rannsóknaraðferð og listsköpun sem leið til að takast á við umhverfisbreytingar

Niðurstaðan er lifandi og persónuleg sköpun barna sem endurspeglar samband þeirra við eitt merkasta náttúrufyrirbæri Íslands – Vatnajökul. Niðurstöður verkefnisins verða sýndar í Norrænahúsinu  í Reykjavík vorið 2026 í tengslum við sýningu sem fjallar um Jökla og loftslagsbreytingar.

 

Hanna Dís Whitehead er hönnuður og listakona sem vinnur á mörkum nytjalistar og frjálsrar sköpunar, þar sem hún rannsakar nærumhverfi sitt með næmni fyrir efni, litum og formum. Í verkum sínum sækir hún innblástur í hversdagslegar aðstæður, landslag og persónulegar minningar, og skoðar hvernig hönnun getur orðið samtal við stað og samfélag.

Hanna Dís leggur sérstaka áherslu á endurnýtingu og efnivið sem ber með sér sögu, bæði í efnislegum og hugmyndafræðilegum skilningi. Hún vinnur gjarnan með endurunnin eða afgangsefni og breytir þeim í nýjar frásagnir og hlutverk, þar sem sjálfbærni og virðing fyrir umhverfinu fléttast saman við leikandi og tilraunakenndan sköpunarferli.

Upplýsingar
Hvað

LÁN

Hvenær

Nóvmeber 2025

Hvar

Grunnskóli Hornafjarðar

Hverjir

Hanna Dís Whitehead

Aldurshópur

1. - 10. bekkur

Aðstaða og tækni

Listasmiðja með fjölbreyttum efnivið, þar sem emndurnýting er höfð að leiðarljósi.