Munnleg geymd og kortlagning minninga var áttunda fræðsluverkefni Skaftfells og stóð öllum grunnskólum á Austurlandi til boða þeim að kostnaðarlausu. Listsmiðjan miðaðist við nemendur á miðstigi og var framkvæmd í október 2016.
Í verkefninu var hugtakið munnleg geymd krufið af nemendum og í kjölfarið skoðað hvað gerist þegar munnleg geymd er skrásett annars vegar sem hljóðupptaka og hins vegar á sjónrænan máta.
Nemendur sem tóku þátt nýttu eigin minninga- og frásagnarbanka til að segja frá atburði eða upplifun hvort sem það var þeirra eigin reynsla eða eitthvað sem þau höfðu heyrt af. Í kjölfarið útfærðu þau frásögnina sjónrænt með því að gera eins konar kort af frásögninni eftir eigin höfði.
Á heimasíðu Skaftfells má líta og heyra allar þær frásagnir og kort sem söfnðust saman í smiðjunum. http://skaftfell.wixsite.com/minningar