6. febrúar 2020

List fyrir alla tekur þátt í The Wow Experience

List fyrir alla er nýkomin frá Osló þar sem 16 fulltrúar frá fjórum löndum funduðu til að skipuleggja The Wow Experience – ESB verkefni sem miðar að aukinni upplifun grunnskólanemenda af listviðburðum.

WOW Experience verkefnið verður til þriggja ára og lýkur því í ágúst 2023. Í verkefninu munum við rýna vel í þá ytri þætti sem hafa áhrif á upplifun nemenda af listviðburðum og verður lögð áhersla á samvinnu listveitenda og skóla – og á samstarf innan einstakra skóla.

Með því að bera saman og deila upplifun á starfshætti okkar milli landanna fjögurra er markmið verkefnisins að útbúa nokkurs konar verkfærakistu sem inniheldur góð ráð og ábendingar hvað þennan málaflokk varðar. Fjórir skólar og fjórir listveitendur frá Íslandi, Finnlandi, Norður-Makedóníu og Noregi taka þátt í verkefninu ásamt Háskólanum í Østfold og Arts for Young Audiences Norway. Verkefninu er stýrt af Vestfold og Telemark sýslunefnd í Noregi og eru fulltrúar Íslands í verkefninu List fyrir alla og Laugarnesskóli.