4. maí 2018

Listalest LHÍ í Hveragerði – Hver erum við?

List fyrir alla, Listkennsludeild LHÍ og Listasafn Árnesinga eru reynslunni ríkari eftir frábæra daga með 8. og 9. bekkjar nemendum úr Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, Flóaskóla, Grunnskólans í Hveragerði og Grunnskólans í Þorlákshöfn. Um 130 krakkar unnu ásamt 14 listkennslunemum og kennurum grunnskólanna í fjórum þverfaglegum listasmiðjum sem haldnar voru í Grunnskólanum í Hveragerði og Listasafni Árnesinga og var afraksturinn töfrandi. Öflugir og kátir krakkar ásamt stoltum kennurum tóku á móti okkur og voru niðurstöður verkefnanna eins ólík og fjölbreytt og þau voru mörg.

Á lokdegi var afrakstur verkefnins settur upp af fagfólki undir leiðsögn sýningarstjóra sem vegleg listasýning sem ber nafnið Hver erum við? í Listasafni Árnesinga. Að sjálfsögðu var haldin opnun, sem var vel sótt og héldu nemendur ræðu til að kynna verkefni sín. Sýningin mun standa út maímánuð, allir hjartanlega velkomnir!

List fyrir alla þakkar frábært samstarf og óskar öllum þátttakendum til hamingju með frábæran afrakstur.

Hér er yfirlit yfir listasmiðjurnar fjórar:

#framtíðin
veggtjald/textílverk

Unnið var veggtjald á textíl. Nemendur unnu í hópum við að skapa sína eigin framtíðarsýn. Unnið var með blandaða tækni á 50×100 cm hvítt efni. Spurningar sem hóparnir veltu fyrir sér voru m.a. “Hvernig munum við ferðast? Hvað munum við borða? Verða allir hættir að hanga í símanum?” Verk hópanna voru sett saman í heildarverk, sem myndar eitt langt veggtjald.

Hljóðfærin okkar
blönduð tækni

Nemendur unnu í litlum hópum við að búa til óhefðbundin hljóðfæri. Efniviður var sóttur í nærumhverfi nemenda. Nýttar voru stuttar kynningar og umræður um hljóðfæragerð, hljóðverk, hljóð, hlustun, náttúruvernd og sjálfbærni. Gestum býðst að spreyta sig við að leika á hljóðfærin.

Lifandi myndir
leikrænar ljósmyndir/innsetning

Unnið var út frá fyrirbærinu “tableau vivant” sem er stillimynd sett upp af leikurum í búningum fyrir framan málaðan bakgrunn. Leiklistaræfingar og leikir voru notaðir til að skapa sögu en einungis með stellingum og svipbrigðum. Í viðbót voru notaðir langir efnisstrangar í ýmsum litum til að búa til búninga og bakgrunn. Gestum býðst að stilla sér upp við leikmyndina og taka mynd af sér!

Nú-stilling
vídeó og hljóð innsetning

Við gerð verkanna stilltu nemendur sig inn á núvitundina, þar sem leitast var við að tengja sig við stað og stund.
Í núinu fundu þau efnivið sinn, gripu hann, tóku hann inn og “filteruðu” í gegnum skynfærin og taugatrefjarnar. Efniviðurinn var náttúran, byggða umhverfið og samfélag. Tekin voru upp mörg stutt myndbönd sem klippt voru saman og hljóðupptökur unnar í hljóðverk. Notast var við símamyndavélar og hljóðupptökutæki í vinnuferlinu. Í innsetningunni er efniviður úr gróðurhúsum nýttur sem umgjörð fyrir myndbands- og hljóðverkasýningu. Lesa má orð sem komu upp í huga nemenda við gerð verksins.