Árstíðirnar – veturinn Dans

Árstíðirnar – veturinn

Öllum nemendum skólans er boðið á danssýningu, Veturinn, sem er hluti af sýningunni Árstíðirnar eftir Snædísi Lilju Ingadóttur og Valgerði Rúnarsdóttur sem frumsýnd var á stóra sviði Borgarleikhússins í janúar 2024 í samstarfi við Íslenska dansflokkinn.

Veðurfar hefur í gegnum aldirnar haft mikil og mótandi áhrif á líf fólks á Íslandi, enda búum við á eyju sem einhverjum gæti þótt á mörkum þess að vera byggileg. Hér eru náttúruöflin óútreiknanleg og vetur oftar en ekki harðir.

Veturinn er dansverk þar sem líkami, leikmynd og tónlist túlka vetur í gegnum hreyfingu. Þar er ímyndunarafli áhorfandans boðið upp í dans og í ferðalag á áður óþekktar slóðir. Þar birtast okkur mögulega draumkenndar snjóverur, ísilögð snjóbreiða, skríðandi ísskúlptúr og dansandi manneskjur.

Að sýningu lokinni er nemendum skipt upp í hópa þar sem þau fá tækifæri til þess að ræða dans og skapa út frá vinnuaðferðum höfundanna. Kannaðir eru hreyfimöguleikar líkamans og hvernig hann tengist rýminu, ryþma og tónlist. Hvernig efni eða hlutir geta lifnað við og tekið á sig breytta mynd og hvernig túlka megi viðfagnsefni eins og árstíðir og veðurfar með hreyfingu.

 

Upplýsingar
Hvað

Danssýning og smiðja

Hvenær

Haust 2024

Hvar

xxx

Hverjir

Valgerður Rúnarsdóttir
Snædís Lilja Ingadóttir

Aldurshópur

Allur aldur

Aðstaða og tækni

Hljóðkerfi, Nettenging. í sýningunni er notast við stóran uppblásinn skúlptúr. Því eru íþróttahús ákjósanlegur kostur fyrir bæði sýningar og vinnustofur.