Að skrifa til að lifa er fyrirlestur og smiðja þar sem rithöfundarnir Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Bragi Páll Sigurðarson fjalla um hvernig það að halda dagbók og stunda skapandi skriftir opnar nýjar víddir og getur verið heilun fyrir snjáðar sálir. Þau fara með nemendur í hið hlykkjótta ferðalag að skriftunum, heilunina í sköpuninni og hversu erfitt sé stundum að skrifa en gott að hafa skrifað.
Hið ritaða orð er hrífandi leið til þess að kynnast ólíkum menningarheimum og atburðum, skálduðum og sönnum, og að sama skapi ómetanlegt til að fá innsýn í eigin hugarheim og annarra. Að skrifa hjálpar okkur að læra af reynslunni, vinna úr brotakenndum hugsunum og kynnast sjálfum okkur og fólkinu í kringum okkur enn betur.
Kvíði er samfélagslegt vandamál sem leggst ekki hvað síst á unglinga og í fyrirlestri sínum tala þau Bergþóra og Bragi um sína eigin reynslu af því að nota skriftirnar sem aðferð við að vinna úr flóknum tilfinningum, hvernig maður þarf alls ekki að vera snillingur í íslensku til að geta sagt frábæra sögu og hversu fjölbreytt starf rithöfundarins er.
Þau hafa áður ferðast með fyrirlestur á unglingastigi á vegum Rithöfundasambandi Íslands sem hlaut afar góðar undirtektir.
Bergþóra Snæbjörnsdóttir er rithöfundur og ljóðskáld. Hún er með B.A.-gráðu í sálfræði og ritlist frá Háskóla Íslands, auk meistaragráðu í hagnýtri menningarmiðlun frá sömu stofnun. Hún hefur sent frá sér ljóðabækur og skáldsögur og verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir tvær bóka sinna, hlotið Maístjörnuna fyrir bestu ljóðabókina, Fjöruverðlaunin og Bóksalaverðlaunin fyrir bestu skáldsöguna. Hún hefur komið að vinnu við kvikmyndahandrit, myndlist, bókaútgáfu og sinnt verkefnastjórnun á sviði lista og menningar.
Hún er líka fædd og uppalin á sveitabæ á Suðurlandi og ætlaði sér að verða hrossaræktarráðunautur en ekki rithöfundur.
Bragi Páll Sigurðarson er ljóðskáld, rithöfundur og skipstjóri. Hann útskrifaðist úr ritlist við Háskóla Íslands og hefur sent frá sér skáldsögurnar Austur og Arnaldur Indriðason deyr auk ljóðabókanna Fullkomin ljóðabók og HOLD, en fyrir Austur var hann tilnefndur til Rauðu Hrafnsfjaðrarinnar. Hann hefur einnig starfað sem blaðamaður og pistlahöfundur, og hefur þar hlotið mesta athygli fyrir svokallaða upplifunarpistla, sem og pistla sína um persónuleg málefni. Hann hefur komið að kvikmyndahandritunargerð og nú er verið að vinna að kvikmynd eftir skáldsögu hans, Austur. Bragi er skilnaðarbarn og ólst upp í Stykkishólmi og Mosfellsbæ. Hann byrjaði á sjó átta ára gamall hjá pabba sínum og var þar með orðinn launahæsti þriðji bekkingur Mosfellsbæjar.
Listasmiðja
Haust 2023
Norðvesturland
Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Bragi Páll Sigurðarson
8. - 10. bekkur
Skjávarpi