Að vera maður sjálfur Ritlist

Að vera maður sjálfur

Hvernig þekkjum við Önnu Frank? Hvers vegna skrifaði Petter Moen dagbók á klósettpappír? Af hverju skrifar fólk eiginlega dagbækur eða bækur yfir höfuð? Skrif hjálpa fólki að hugsa og eru merkileg skrásetning á bæði upplifun fólks og tíðaranda. Maður má líka skrifa um allt sem manni dettur í hug. Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir og Jónas Reynir Gunnarsson fjalla um gagnsemi þess að skrifa og hvernig það að tjá sig, og það að skálda sögur, er mikilvægur hluti af því að vera manneskja og frábær staður til að vera maður sjálfur. Það er líka bráðhollt, bæði fyrir þann sem skrifar og samfélagið.

Jónas Reynir Gunnarsson er ljóðskáld og rithöfundur. Hann útskrifaðist úr ritlist við Háskóla Íslands og hefur sent frá sér skáldsögurnar Millilendingu og Krossfiska og ljóðabækurnar Leiðarvísi um þorp og Stór olíuskip, en fyrir þá síðarnefndu hlaut hann Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2017. Hann hefur einnig fengist við myndasögugerð og leikritun. Árið 2015 vann hann leikritunarkeppni Sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands fyrir verkið Við deyjum á mars.

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er teiknari og myndasöguhöfundur. Hún er útskrifuð úr meistaranámi í ritlist frá Háskóla Íslands, er með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands auk þess sem hún lagði stund á teikninám í Parson´s New School for Design í New York. Lóa hefur myndskreytt fjölda kennslu- og barnabóka, teiknað myndasögur fyrir blöð og bækur og sent frá sér leikverk og bækur, m.a. Lóaboratoríum og Lóaboratoríum: Nýjar rannsóknir. Lóa Hlín er líka tónlistarkona og spilar tónlist með hljómsveitinni FM Belfast.

Verð
40.000 kr.

Tímalengd
Ein kennslustund/ 40 mínútur

Pantanir
Allar pantanir berist á tinna@rsi.is. Nánari upplýsingar eru veittar í síma 568 3190.

Skáld í skólum

Á hverju hausti býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrár undir nafninu Skáld í skólum þar sem höfundar heimsækja skólana til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. Dagskrárnar í Skáld í skólum eru metnaðarfullar og fræðandi, höfundar koma í heimsókn til að tala um bækur og lestur, sköpun og skrif, ævintýri sögupersóna jafnt sem skapara þeirra og síðast en ekki síst til að smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði.

Í ár fara 6 skáld frá Höfundamiðstöð RSÍ í ævintýraleiðangur með nemendum og kennurum um undraheima bókmennta, þau gera tilraunir til að búa til vísindatrylli, uppgötva leynistaði þar sem maður getur verið maður sjálfur og þefa uppi kynngimagnaðar bækur sem geta breytt heiminum til hins betra.

Skáld í skólum er á sínu 14. starfsári og hefur fyrir löngu sannað sig sem ómissandi þáttur í kynningu nútímabókmennta í grunnskólum landsins, en hátt í 70 mismunandi dagskár hafa orðið til innan vébanda verkefnisins frá því það hóf fyrst göngu sína 2006.

Höfundamiðstöð og Skáld í skólum njóta stuðnings Menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar.

 

Upplýsingar
Hvað

Bókmenntadagskrá

Hvenær

16. október til 15. nóvember 2019

Hvar

Um allt land

Hverjir

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir og Jónas Reynir Gunnarsson

Aldurshópur

8.-10. bekkur

Aðstaða og tækni

Salur eða kennslustofa, hljóðkerfi með 2 hljóðnemum og tölva með skjávarpa sem skóli hefur til reiðu.