Gull og grjót á skólalóðinni Hönnun

Gull og grjót á skólalóðinni

Að fá innsýn í heim arkitekta og hönnuða um það hvernig manngert umhverfi okkar hefur áhrif á okkur, hvort sem við áttum okkur á því eða ekki, og hversu nauðsynlegt það er öllum að það sé bæði listrænt, fallegt og gott að vera í.
Verkefnið spannar einn skóladag þar sem nemendur kynnast því að vinna með form og með rými, efni og list þannig að sem flestum líði vel. Þeir kanna og leggja mat á skólalóðina sína í þeim tilgangi að greina gæði hennar og galla, og velta upp hugmyndum um mögulegar umbætur sem hægt væri að ráðast í.

Verklýsing:
1. Viðburðurinn er settur með innlögn þar sem sýnd eru valin dæmi um barnaskólabyggingar og lóðir frá ýmsum tímum listasögunnar og vakin athygli á ólíkri hugmyndafræði og sýn á skólastarf þar með talið leik skólabarna og umgjörð utan um frímínútur í skólum sem birtist í formi byggingana og rými á skólalóðum. Lögð er áhersla á opið viðmót gagnvart viðfangsefninu og nemendur hvattir til að koma með vangaveltur og innlegg í hvers vegna hlutirnir líta út eins og þeir gera, hvað þeim finnist gott eða vont og kynnt aðferðafræði til að rökstyðja hvers vegna.

2. Nemendur útbúa pappaspjöld með útskornum stensli (skapalón) af annarsvegar plústákni og hinsvegar mínustákni og fá úthlutað málningu í tveimur skærum litum, það er rauðum og gulum. Þau fara síðan um skólalóðina með gagnrýnu hugarfari, velja þá staði innan hennar sem eru annarsvegar sérstaklega góðir / þægilegir / skemmtilegir / jákvæðir og hinsvegar sérstaklega ljótir / óþægilegir / þrúgandi / neikvæðir. Valinn er réttur stensill miðað við upplifunina fyrir staðnum og táknið málað rautt fyrir “grjót” (galla) og gult fyrir “gull” (gott) á jörðina.

3. Að verkinu loknu er litið yfir heildarmynd svæðisins og rýnt í hvernig táknin hafa dreifst á lóðina. Útkoman er efniviður í umræður um hvern stað innan lóðarinnar, kannað er hvaða munstur hefur myndast sjónrænt séð á lóðinni, hvort sömu táknin raðast saman og hvaða áhrif þetta vekur.

4. Í lokin teikna nemendur stóra grunnmynd af skólalóðinni og miðla verki dagsins í myndrefil sem hengdur er upp í skólanum til sýningar fyrir alla.
Ath. Hægt er að nota viðburðinn sem efni til frekari úrvinnslu með kennurum skólans í áframhaldandi vinnu með betrumbætur á skólalóðinni eða í bænum.

Leitast er við að vekja forvitni nemenda og opna augu þeirra fyrir manngerðu umhverfi sínu undir formerkjum “learning by doing” á myndrænan hátt. Nemendurnir eru þátttakendur í viðburðinum sem örvar trú þeirra á eigin getu í félagslegu samhengi og hvetur til tjáningar undir lýðræðislegum formerkjum.

Lítið er um miðlun á byggingalist og hönnun til þessa aldurshóps, en verkefnið leitast við að kynna viðfangsefnið á uppbyggilegan og lifandi hátt.

Guja Dögg Hauksdóttir er arkitekt cand.Arch, rithöfundur og er  m.a. höfundur bókarinnar Byggarlistar í augnhæð, frumkvöðlaverks um kennslu í grunnatriðum byggingarlistar fyrir íslenska grunnskóla.

María Sjöfn Dupuis Davíðsdóttir, hönnuður, listamaður og MA dipl.art edu. hefur m.a. kennt verkefni undir Menntun til sjálfbærni, þar sem unnið er með nærumhverfi og efnivið þess í hönnun barna.

Báðar hafa þær kennt hönnun og byggingarlist á grunnskólastigi, framhaldsskólastigi og í Listaháskólum um langt skeið og samið kennsluefni fyrir börn í hönnun og byggingarlist.

 

 

Upplýsingar
Hvað

Byggingarlist og hönnun

Hvenær

11. - 15. september 2017

Hvar

Reykhólar, Tálknafjörður, Bíldudalur, Patreksfjörður, Hólmavík, Drangsnes

Hverjir

Guja Dögg Hauksdóttir
María Sjöfn Dupuis Davíðsdóttir

Aldurshópur

1. - 10. bekkur

Aðstaða og tækni

Salur með skjávarpa fyrir skyggnufyrirlestur. Skólalóð, hvít pappaspjöld, dúkahnífa eða skæri, hvítan pappírsrenning og ritföng. (Upptökutæki, mynd og hljóð ef mögulegt er)