Gullpotturinn – sagnasmiðja fyrir hugmyndaríka krakka Myndlist/sjónlistir

Gullpotturinn – sagnasmiðja fyrir hugmyndaríka krakka

Sverrir Norland og Kristín Ragna eru þaulvanir sagnasmiðjustjórar og hafa heimsótt skóla víða um land. Þau segja frá því hvernig það er að vera rit- og myndhöfundur og leiða börnin í gegnum bráðskemmtilegan leik í leit að sögum og ævintýrum. Undir handleiðslu höfundanna spinna börnin saman söguþráð og geta svo beitt sams konar aðferð til að skrifa, teikna eða leikstýra í framhaldinu. Þau eru hvött til að skapa sér til ánægju en einnig bent á að þau geti tekið þátt í þeim verkefnum sem Sögur – verðlaunahátíð barnanna, KrakkaRúv o.fl. standa fyrir ár hvert.

Til að örva hugarflug barnanna geta þau sótt í Gullpottinn dularfulla, sem Kristín og Sverrir hafa jafnan með sér og vekur ævinlega lukku og forvitni.

Sverrir Norland hefur starfað sem rithöfundur og fjölmiðlamaður um árabil og hefur víðtæka reynslu af hvers kyns miðlun (sjónvarp, hlaðvarp, útvarp, bókaskrif, blaðamennska, fyrirlestrar). Hann hefur gefið út fjölda bóka ásamt því að vera reglulegur gagnrýnandi hjá Kiljunni og stýra hlaðvarpinu Bókahúsið. Sverrir rekur útgáfuna AM forlag ásamt konu sinni, Cerise Fontaine, sem sérhæfir sig í þýddum barnabókum. Ellefta bók hans, Stríð og kliður vakti athygli fyrir persónulega nálgun að stórum málefnum samtímans: tækni, sköpun og loftslagsvánni.

Sverrir hefur víðtæka reynslu af því að stýra alls kyns skapandi starfi með börnum, til að mynda föndursmiðjum AM forlags, þar sem börn og foreldrar teikna og spinna sögur út frá bókum útgáfunnar, og „Hækuleikum Landakotsskóla“ (2022) þar sem nemendur virkjuðu athyglisgáfuna með því að semja hækur. Þá ferðaðist Sverrir, ásamt Kristínu Rögnu, á þriðja tug skóla haustið 2021 í Skáld í skóla- verkefninu.

Kristín Ragna Gunnarsdóttir útskrifaðist úr grafískri hönnun frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún er með BA-próf í bókmenntafræði og MA-próf í ritlist frá Háskóla Íslands. Kristín hefur skrifað 11 barnabækur og er meðhöfundur þriggja myndabóka. Hún hefur hlotið Dimmalimm – íslensku myndskreytiverðlaunin í tvígang og verið tilnefnd til: Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna, Barnabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, Barnabókmenntaverðlauna Vestnorræna-ráðsins og In Other Words verðlaunanna.

Kristín Ragna hefur verið sýningarstjóri nokkurra barnasýninga og sýningin Barnabókaflóðið sem hún vann fyrir Norræna húsið var sett upp í Eystrasaltslöndunum. Kristín hefur verið þátttakandi í List fyrir alla í þrígang og heimsótti tugi skóla með Sverri Norland á vegum RSÍ í verkefninu Skáld í skólum í fyrra. Auk þess ritstýrði hún RisaStórar smásögur í tengslum við Sögur – verðlaunahátíð barnanna 2021. Kristín Ragna kennir myndlýsingar við Myndlistaskólann í Reykjavík og ritlist við Háskóla Íslands. Hún hefur tvisvar sinnum fengið Vorvindaviðurkenningu IBBY fyrir framlag sitt til barnamenningar.

Upplýsingar
Hvað

Myndlist / sjónlistir, Bókmenntir

Hvenær

3. - 7. október 2022

Hvar

Suðurland

Hverjir

Kristín Ragna Gunnarsdóttir
Sverrir Norland

Aldurshópur

1. - 10. bekkur

Aðstaða og tækni

Kennslustofa eða salur með tölvu sem er tengd við skjávarpa - og tjaldi til að varpa myndum á.